Handbolti

Rúnar: Mér líka ekki holningin á liðinu

Benedikt Grétarsson skrifar
Rúnar í leiknum í dag
Rúnar í leiknum í dag vísir/bára
Rúnar Sigtryggsson, þjálfari Stjörnunnar var brúnaþungur eftir tapið gegn ÍBV.

 

„Við náttúrulega vitum það fyrir leikinn að Árni (Sigtryggssson, innsk.blm) getur ekki skotið á markið og það eru í raun bara tveir leikmenn sem geta skotið fyrir utan hjá okkur. Ef þeir bjóða ekki upp á betri leik en í dag, þá fer þetta bara svona. Það er ekkert flóknara en það. Mér fannst þetta bara lélegt hjá þeim,“ sagði Rúnar og vísaði til Arons Dags Pálssonar og Egils Magnússonar sem skutu illa í leiknum.

 

Hvað skildi liðin að?

 

„Þeir unnu þennan leik vegna þess að í 5-1 vörninni okkar, þá eru þessir þrír sem standa fyrir aftan að tapa alltof mörgum návígum. Leikmenn ÍBV unnu öll návígi og Fannar Friðgeirsson labbaði framhjá þeim að vild. Það gerði útslagið í seinni hálfleik þar sem hinir útispilararnir hjá þeim voru frekar kaldir. Fannar kláraði þetta fyrir þá en það var bara allt opið hjá okkur,“ sagði gamli varnarjaxlinn ósáttur.

 

En er Stjörnuliðið á svipuðum stað og Rúnar hefði getað gert sér vonir um fyrir mót?

 

„Nei, við erum bara búnir að tapa of mörgum leikjum í restina. Það spilar ýmislegt inn í það en ég er að sjá holningu á liðinu sem mér líkar ekki við. Þegar reynir eitthvað á, þá stinga menn hausnum í sandinn. Þannig var það í kvöld og í stað þess að bíta á jaxlinn og reyna að gera sitt besta, þá eru alltof margir leikmenn sem eru heilir en eru ekki að skila sínu á vellinum,“ sagði óvenju hvassyrtur Rúnar Sigtryggsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×