Umfjöllun og viðtöl: Selfoss - ÍR 31-30 │Selfoss marði ÍR

Arnar Helgi Magnússon í Hleðsluhöllinni og Selfossi skrifa
Elvar Örn Jónsson, leikmaður Selfoss.
Elvar Örn Jónsson, leikmaður Selfoss. vísir/Bára
Það var mikið fjör þegar Selfoss og ÍR mættust í Olísdeldinni í Hleðsluhöllinni á Selfossi í kvöld. Selfyssingar komu inn í leikinn með tap á bakinu en þeir lágu fyrir Stjörnunni í síðustu umferð deildarinnar.

 

Jafnræði var með liðunum fyrstu mínúturnar en um miðjan fyrri hálfleik náðu Selfyssingar yfirhöndinni og náðu mest þriggja marka forystu. Breiðhyltingar komu alltaf til baka og leyfðu Selfyssingum ekki að stinga af.

 

Pawel Kiepulski, markvörður Selfyssinga var ekki í leikmannahóp í kvöld og stóð Sölvi Ólafsson í markinu í hans fjarveru. Sölvi náði sér engan veginn á strik í leiknum og því kom Helgi Hlynsson inn í síðari hálfleik. Samanlagt voru þeir með sjö skot varin í leiknum.

 

Heimamenn leiddu með tveggja marka mun í hálfleik, 15-13. Selfyssingar héldu síðan uppteknum hætti í síðari hálfleik, höfðu yfirhöndina en náðu aldrei að slíta gestina almennilega frá sér.

 

Þegar tíu mínútur voru eftir af leiknum var staðain 28-23 fyrir Selfoss og væntalega margir stuðningsmenn liðsins haldið að þetta væri komið. Bjarni Fritzson, þjálfari ÍR tók leikhlé og hans menn náðu að minnka muninn í eitt mark þegar fimm mínútur eftir og því ansi fjörugar mínútur framundan.

 

Aftur náðu Selfyssinga þriggja marka forskoti en aftur komu gestirnir til baka. Selfyssingar voru einu marki yfir þegar þeir héldu í sókn þegar tæplega 30 sekúndur voru eftir af leiknum. Selfyssingar þurftu að taka skot sem að vörn ÍR tók, Sturla Ásgeirsson fékk boltann og þurfti að taka skotið frá miðjunni en Sölvi varði það nokkuð þægilega.

 

Lokatölur 31-30 og Selfyssingar komnir aftur á sigurbraut eftir tap í síðustu umferð. Afar svekkjandi fyrir ÍR, góð frammistaða hjá þeim í kvöld.

 

Afhverju vann Selfoss?

Eins og fyrr segir höfðu Selfyssingar undirtökin allan leikinn en náðu aldrei þessari afgerandi forystu sem þeir vonuðust svo sannalega til. Baráttugleðin í liði ÍR var allsráðandi og virtust þeir staðráðnir í að ná stigi hér í kvöld, ef ekki tveimur. Markvarsla Selfyssinga var lítil sem engin í kvöld og sennilega stór ástæða þess að ÍR-ingar voru inn í leiknum allt til enda.

 

Selfyssingar kunna að loka þessum leikjum og þeir sýndu það hér í kvöld.

 

Hverjir stóðu uppúr?

Elvar Örn Jónsson bar höfuð og herðar yfir aðra leikmenn vallarins í dag. Skoraði átta mörk,  fimm löglegar stöðvanir, þrettán sköpuð færi og sjö stoðsendingar, takk fyrir takk.

 

Selfyssingar geta treyst á Elvar Örn til þess að stíga upp þegar mest á reynir.

 

Hjá gestunum úr Breiðholtinu var Björgvin Þór Hólmgeirsson atkvæðamestur með átta mörk, líkt og Elvar. Björgvin tók á skarið og var allt í öllu í sóknarleik ÍR, með fimm stoðsendingar.

 

Hvað gekk illa?

Eins og fyrr segir gekk Sölva Ólafssyni og Helga Hlynssyni virkilega illa í fjarveru Pawel Kiepulski, sem var með flensu að sögn Patreks Jóhannessonar þjálfara Selfoss. Samanlagt sjö varðir boltar og sennilega stór ástæða þess að ÍR var inn í leiknum allt til loka.

 

Varnarleikur liðanna var oft á tíðum skrautlegur, eins og sést kannski best á stigatöflunni. 61 mark skorað í leiknum.

 

Hvað gerist næst?

Spilað verður Í Coca-Cola bikarkeppninni í vikunni og eiga Selfyssingar verðugt verkefni framundan gegn Fram. ÍR fer til Vestmanneyja og mæta þar ÍBV 2.

 

Bæði lið eiga síðan einn leik eftir fyrir áramót í deildinni. Selfyssingar fá botnlið Akureyrar í heimsókn hingað í Hleðsluhöllina næstkomandi sunnudag, flautað verður til leiks klukkan 16:00. ÍR tekur á móti Mosfellingum í Austurberginu á mánudagskvöldið í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.

Patti Jó: Miklu sterkari deild en fyrir þremur árum

,,Þetta var spennandi allan leikinn, bara svipað eins og hefur verið í síðustu leikjum hjá okkur en ég er bara ánægður með sigurinn,“ sagði Patrekur Jóhannesson eftir sigur sinna manna gegn ÍR í kvöld.

 

,,Við vorum agaðir í sóknarleiknum og vorum ekki með tæknifeil í fyrri hálfleik en fjóra í seinni. Þetta minnti mig svolítið á leikina okkar í fyrra þegar við vorum að vinna þetta mikið á sóknarleiknum.“

 

,,Það eru líka leikmenn hjá ÍR sem eru bara góðir, það má ekki gleyma því. Björgvin, Arnar og Pétur Árni til að mynda. Ég er bara hrikalega ánægður með að vinna ÍR-ingana.“

 

Selfyssingar höfðu yfirhöndina nánast allan leikinn en náðu ekki að slíta Breiðhyltinga frá sér. Patti segir deildina hrikalega jafna.

 

,,Já enda er þessi deild orðin hrikalega jöfn, það er sama við hvern maður spilar. Við eigum Akureyri í næsta leik hérna heima og það verður það nákvæmlega sama upp á teningnum þá. Ef ég ber þessa deild saman við það þegar ég var að þjálfa fyrir þremur árum þá er þetta bara miklu sterkara.“

 

Pawel Kiepulski, markvörður Selfyssinga var ekki í leikmannahóp liðsins í kvöld vegna flensu, að sögn Patreks. Haukur Þrastarson hefur verið að glíma við meiðsli undanfarið en það sást bersýnilega í leiknum í kvöld að hann var ekki 100%. Haltraði mikið og spilaði takmarkað.

 

,,Við erum með færasta sjúkraþjálfara landsins, hann Jón Birgi. Ef að hann gefur grænt ljós þá neita ég ekki, en þetta var ekki mín ákvörðun. Ég held að flestir þjálfarar hefðu látið hann spila, ég spilaði Hauki kannski aðeins of margar mínútur,“ sagði Patrekur í lokin.

 

 Bjarni Fritzson: Svekkelsi að ná ekki að klóra í stig

,,Þetta var bara hörkuleikur og það er gaman að spila hérna, fyrsta skipti sem að maður kemur hingað,“ sagði Bjarni Fritzson eftir tapið gegn Selfyssingum í kvöld.

 

,,Ég var rosalega ánægður með sóknarleikinn, sérstaklega í seinni hálfleik. Við brugðumst vel við öllu því sem að þeir voru að gera, vorum að láta boltann vinna mikið fyrir okkur og við unnum vel saman. Ég var mjög ánægður með það.“

 

,,Ég var ánægður með þéttleikann í vörninni, þeir voru þó að fá aðeins of ódýr hornafæri. Við vorum að leggja upp með vera þéttir á miðjunni til þess að mæta skyttunum þeirra. Mér fannst Elvar kannski fá aðeins of mikinn tíma og pláss stundum.“

 

,,Heilt yfir góð frammistaða en svekkelsi að ná ekki að klóra í eitt stig.“

 

Bjarni var ánægður með það hvernig hugarfar sinna manna var í dag.

 

,,Ég var mjög ánægður með viðhorfið og hvernig við komum inn í leikinn. Menn voru með smá töffaraskap og voru svolítið harðir, það er það sem að við þurfum á að halda í öllum leikjum.“

 

Bjarni er bjartsýnn á framhaldið.

 

,,Nú erum við bara komnir aftur upp á við eftir dapran leik um daginn. Við verðum bara að klára þetta fram að jólum og svo vonandi náum við að fá alla til baka og höldum áfram að vinna í okkar málum,“ sagði Bjarni að lokum.

Elvar Örn: ÍR gefst ekkert upp

„Það var óþarfi að missa þetta niður þegar við vorum komnir fjórum mörkum yfir. ÍR er bara með gott lið og Stephen (Nielsen) var að verja frá okkur. Mér fannst sóknarleikurinn samt góður allan leikinn."

„Við náðum ekki að slíta þá frá okkur, ÍR gefst ekkert upp og þeir halda áfram að berjast endalaust. Ef við slökum eitthvað á þá jöfnuðu þeir bara á þremur mínútum."

Elvar segir það ekki áhyggjuefni að liðið hafi fengið á sig 30 mörk gegn liði í neðri hlutanum.

„Nei nei, alls ekki. Við munum bara bregðast við þessu og bæta vörnina, með betri varnarleik kemur betri markvarsla.

Selfyssingar mæta Fram í bikarkeppninni í vikunni en liðið á harm að hefna gegn Fram eftir að hafa tapað fyrir þeim í undanúrslitum bikarkeppninnar í vor.

„Já klárlega. Við ætlum okkur áfram í 8-liða úrslit, það er ekki nokkur spurning.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira