Handbolti

725 dagar síðan Haukar unnu FH-inga í Olís deildinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
FH-ingurinn Jóhann Birgir Ingvarsson og Haukamaðurinn Heimir Óli Heimisson eigast við.
FH-ingurinn Jóhann Birgir Ingvarsson og Haukamaðurinn Heimir Óli Heimisson eigast við. vísir/ernir
FH tekur í kvöld á móti Haukum í stórleik tólftu umferðar Olís deildar karla í handbolta en FH-ingar geta komist upp fyrir nágranna sína með sigri í leiknum.

Leikurinn hefst klukkan 19.30 og verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport. Útsendingin hefst klukkan 19.15 og strax eftir leikinn tekur Seinni bylgjan við eða klukkan 21.15.

Það verður fróðlegt að sjá hvort Haukum tekst að losa tak FH-inga og komast aftur upp að hlið Vals á toppi deildarinnar. Haukar eru með einu stigi meira en FH þannig að vinni FH-inga þá komast þeir upp fyrir Hauka og í annað sæti deildarinnar.

FH-ingar hafa haft betur í deildarleikjum liðanna undanfarið. FH vann báða deildarleiki liðanna á síðasta tímabili en fyrri leik liðanna í vetur lauk með jafntefli.

Haukar hafa því spilað þrjá deildarleiki í röð á móti FH án þess að fagna sigri. Síðasti sigur Hauka á FH kom í Kaplakrika 15. desember 2016 eða fyrir 725 dögum síðan.

Sigur Haukanna fyrir rétt tæpum tveimur árum er einnig eini deildarsigur þeirra á FH-liðinu í síðustu sjö viðureignum félaganna. FH hafa fagnað fjórum sinnum sigri á sama tíma.

Síðustu ellefu deildarleikir FH og Hauka:

2018-19

Jafntefli á Ásvöllum (29-29)

2017-18

FH vann með 1 marki í Kaplakrika (30-29)

FH vann með 4 mörkum á Ásvöllum (27-23)

2016-17

Haukar unnu með 1 marki í Kaplakrika (30-29)

FH vann með 4 mörkum á Ásvöllum (28-24)

2015-16

Jafntefli á Ásvöllum (26-26)

FH vann með 1 marki í Kaplakrika (28-27)

Haukar unnu með 7 mörkum á Ásvöllum (32-25)

2014-15

Haukar unnu með 13 mörkum í Kaplakrika (33-20)

Jafntefli á Ásvöllum (22-22)

FH vann með 1 marki í Kaplakrika (25-24)




Fleiri fréttir

Sjá meira


×