Erlent

Trump við sjö ára dreng: „Trúir þú enn á jólasveininn?“

Kjartan Kjartansson skrifar
Forsetahjónin tóku við símtölum frá börnum sem vildu vita um ferðir jólasveinsins í gær.
Forsetahjónin tóku við símtölum frá börnum sem vildu vita um ferðir jólasveinsins í gær. AP/Jacquelyn Martin
Donald Trump Bandaríkjaforseti spurði sjö ára gamlan dreng sem hringdi í Hvíta húsið hvort hann tryði enn á jólasveininn í gær. Forsetanum virtist finnast það á mörkunum að drengur á hans aldri tryði ennþá.

Uppákoman átti sér stað þegar forsetahjónin tóku við símtölum frá börnum sem reyndu að hringja inn til Loftvarnaeftirlits Bandaríkjanna (Norad) sem fylgist með ferðum jólasveinsins á hverju ári. Stofnunin er enn starfandi þrátt fyrir að alríkisstjórn Bandaríkjanna liggi nú að hluta til niðri vegna kröfu Trump forseta um fjárveitingu fyrir landamæramúr á suðurlandamærunum.

Allt virtist ganga vel í fyrstu þegar drengur að nafni Coleman náði inn. Trump forseti spurði hann hversu gamall hann væri og hvernig honum gengi í skólanum áður en gamanið kárnaði.

„Trúir þú ennþá á jólasveininn? Vegna þess að á sjö ára aldri er það á mörkunum, er það ekki?“ sagði Bandaríkjaforseti við drenginn. Engum sögum fer af viðbrögðum Coleman, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.

Myndband af atvikinu hefur farið víða um samfélagsmiðla og netið þar sem margir hafa deilt á forsetann fyrir að ýja að því við ungan dreng að jólasveinninn sé ekki til.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×