Erlent

Bush færði öryggissveit sinni flatbökur vegna lokunar alríkisstofnana

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Forsetinn fyrrverandi færir hér fjársveltum öryggisvörðum flatbökur.
Forsetinn fyrrverandi færir hér fjársveltum öryggisvörðum flatbökur. George Bush/Instagram
George W. Bush, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, setti í dag inn færslu á Instagram-reikning sinn þar sem hann sést færa meðlimum öryggissveitar sinnar flatbökur. Öryggisverðir Bush eru meðal þeirra ríkisstarfsmanna sem vinna nú launalaust vegna lokunar margra alríkisstofnanna Bandaríkjanna.

Í færslunni sagðist Bush þakklátur fyrir „það leyniþjónustufólk og þúsundir opinberra starfsmanna sem nú vinna hörðum höndum í þágu landsins án launa.“ Þá þakkaði hann þeim almennu borgurum sem stæðu þétt við bakið á starfsmönnunum sem um ræðir.

„Það er kominn tími til þess að leiðtogar okkar beggja megin borðsins leggi stjórnmálin til hliðar, vinni saman og bindi enda á þessa lokun,“ segir Bush í lok færslunnar.

Lokunin sem um ræðir nær til ýmissa alríkisstofnanna Bandaríkjanna og veldur því að starfsmenn þeirra þurfa ýmist að vinna launalaust eða taka sér ótímabundið launalaust leyfi, þar sem ekki er búið að úthluta fjármagni til að halda stofnununum gangandi.

Ástandið sem nú er uppi er til komið vegna ágreinings Demókrata og Repúblikana um fjárveitingu til byggingar múrs á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó. Donald Trump, núverandi forseti Bandaríkjanna, er ötull talsmaður þess að múrinn rísi sem fyrst.

Um 800 þúsund alríkisstarfsmenn vinna nú launalaust eða eru frá vinnu. Þar af eru sex þúsund starfsmenn leyniþjónustunnar. Áætlað er að um 85% þeirra starfi nú launalaust sökum lokunarinnar, sem er orðin rúmlega fjögurra vikna löng og því orðin sú lengsta í sögu Bandaríkjanna.


Tengdar fréttir

Trump neitar að gefa eftir varðandi vegginn

Útlit er fyrir að alríkisstofnunum verði lokað eftir að Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, neitaði að skrifa undir fjárlagafrumvarp sem öldungadeild Bandaríkjaþings hafði samþykkt.

Hvíta húsið kannar að lýsa yfir neyðarástandi

Slíkt myndi veita Donald Trump, forseta, vald til að byggja múr á landamærunum, án aðkomu þingsins. Meðal þess sem verið er að skoða er hvort slíkt væri lögum samkvæmt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×