Bandaríska dómsmálaráðuneytið hefur gefið út 13 ákærur á hendur kínverska samskiptafyrirtækinu Huawei og æðsta fjárreiðumanni þess, Meng Wanzhou.
Meðal þess sem ráðuneytið ásakar Meng og Huawei um eru fjársvik, þjófnaður á tækni í eigu bandaríska fyrirtækisins T-Mobile og hindrun framgangs réttvísinnar. Bæði Meng og Huawei neita ásökununum.
Meng var handtekin í síðasta mánuði í Kanada, að ósk Bandaríkjamanna. Henni var þá gefið að sök að hafa farið gegn viðskiptaþvingunum Bandaríkjanna gegn Íran.
Viðskiptaráðherra Bandaríkjanna, Wilbur Ross, hefur lýst því yfir að ákærurnar væru „með öllu ótengdar“ viðskiptasamningaviðræðum sem nú standa yfir á milli Bandaríkjanna og Kína. Þrátt fyrir það hefur mál Huawei og Meng sett strik í reikninginn í samskiptum Bandaríkjanna, Kanada og Kína.
