Fyrstu niðurstöður víðtækrar íslenskrar rannsóknar á afleiðingum höfuðmeisla hjá íslenskum íþróttakonum sýna að þær sem fá heilahristing eru mun líklegri til að finna fyrir þunglyndi og kvíða.
Þetta kom fram í máli Hafrúnar Kristjánsdóttur, lektor við HR, á Rás 2 í morgun.
Hafrún segir í viðtalinu að þær íþróttakonur sem hafi fengið heilahristing séu þrisvar sinnum líklegri til að vera yfir klínískum viðmiðum af þunglyndi og að þær finni fyrir meiri kvíða en þær sem ekki hafa fengið heilahristing.
Reynt var að ná til allra kvenna hér á landi sem eru undir 45 ára og hafa stundað fótbolta, handbolta, körfubolta, íshokkí, júdó, karate og aðrar íþróttir þar sem höfuðmeiðsli eru algeng. 500 konur svöruðu og af þeim höfðum 300 fengið heilahristing minnst einu sinni.
Umræðan um höfuðmeiðsli í íþróttum hefur verið meiri á undanförnum árum en í síðustu viku stóðu ÍSÍ og KSÍ fyrir súpufundi um málefnið. Meðal þess sem þar kom fram og fjallað var um í Fréttablaðinu í morgun er mikilvægi þess að koma í veg fyrir annan heilahristing á meðan einkenni þess fyrri eru enn til staðar.
„Að fá annan heilahristing á meðan einkenni fyrri heilahristings eru enn til staðar getur valdið því að viðkomandi einstaklingur verði mun lengur að jafna sig,“ sagði Lára Ósk Eggertsdóttir Claessen við Fréttablaðið.
„Við upptröppun á álagi er mikilvægt að fara eftir einkennum því ef fólk harkar af sér og er með mikil einkenni getur það líka lengt bataferlið. Langflestir sem fá heilahristing jafna sig á nokkrum dögum eða vikum en hjá um 10-20% vara einkenni lengur,“ sagði hún.
