Cohen ræddi við meðlimi njósnamálanefnd öldungadeildar Bandaríkjaþings í gær á lokuðum fundi og í dag mun hann fara fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd fulltrúadeildarinnar en sá fundur verður opinn.
Blaðamenn New York Times hafa komið höndum yfir yfirlýsingu Cohen sem hann mun lesa upp í upphafi fundarins í dag.
Fundurinn hefst klukkan þrjú í dag og verður sýndur í beinni útsendingu á Vísi.
Meðal annars mun Cohen segja að hann hafi verið með Trump þegar hann ræddi við Stone í aðdraganda kosninganna. Þá mun Stone hafa sagt forsetanum að hann hefði rætt við Julian Assange, stofnanda Wikileaks, skömmu áður og þeir myndu birta tölvupósta sem kæmu verulega niður á framboði Hillary Clinton, mótframbjóðanda Trump, á næstu dögum.
„Það væri frábært,“ á Trump að hafa sagt.
Tölvupóstum þessum var stolið af útsendurum GRU, leyniþjónustu herafla Rússlands, í tölvuárás þeirra á landsnefnd Demókrataflokksins.
Sjá einnig: Demókratar höfða mál gegn Rússum, Wikileaks og framboði Trump
Cohen hefur játað nokkur brot, sem snúa meðal annars að því að ljúga að þingmönnum og brot á kosningalögum vegna greiðslu til klámmyndaleikkonunnar Stephanie Clifford, eða Stormy Daniels. Cohen mun hefja afplánun á þriggja ára dómi sínum í byrjun maí.

Þá mun hann segja að Trump hafi ráðlagt honum hvernig hann gæti greitt Daniels svo ekki væri hægt að rekja það til Trump. Auk þessa mun Cohen afhenda þingmönnum afrit af 35 þúsund dala ávísun sem Trump mun hafa notað til að endurgreiða Cohen, eftir að hann hafði tekið við embætti forseta. Cohen segir Trump hafa afhent sér ellefu slíkar ávísanir.
„Forseti Bandaríkjanna skrifaði persónulega ávísun vegna greiðslu vegna þagnarsamkomulags sem var brot á kosningalögum.“
Hótaði skólum sem Trump sótti
Cohen mun einnig segja frá því að Trump hafi skipað honum að hóta skólum sem hann sótti í gegnum tíðina og koma í veg fyrir að einkunnir hans yrðu birtar. Hann ætlar að afhenda þingmönnum afrit af bréfum sem hann sendi skólunum og hótaði þeim lögsóknum.„Ég er að tala um mann sem lýsir því yfir að hann sé gáfnaljós en skipar mér að hóta menntaskóla hans, háskólum hans og skólastjórn til að koma í veg fyrir birtingu einkunna hans.“
Cohen mun halda því fram að Trump ýki auð sinn þegar það henti honum. Þá meðal annars með því að reyna að komast á lista Forbes yfir auðugust menn heims. Þá hafi hann rýrt auð sinn þegar kom að því að greiða skatta.
Þá ætlar Cohen að segja frá því að Trump hafi beðið hann um að finna einhvern aðila til að bjóða í málverk af Trump sem boðið var upp á uppboði. Markmiðið hafi sérstaklega verið að málverkið af Trump yrði keypt á meira fé en önnur málverk á uppboðinu.
Sumarið 2013 státaði Trump sig af því á Twitter að umrætt málverk hefði verið selt á 60 þúsund dali.
Sjá einnig: Trump lokar góðgerðasamtökum í skugga ásakana um lögbrot
Cohen ætlar einnig að segja að Trump hafi ítrekað skipað honum að hringja í aðila sem Trump skuldaði fé og tilkynna þeim að þeir myndu aldrei fá þá skuld greidda.
Segist fullur iðrunar
Cohen mun verja miklum hluta yfirlýsingar sinnar í að segjast sjá eftir því að hafa starfað fyrir Trump og fyrir að hafa brotið lögin.„Ég skammast mín fyrir að hafa tekið þátt í að hylma yfir ólöglegar aðgerðir Trump í stað þess að hlusta á samvisku mína. Ég skammast mín því ég veit hvað Trump er. Hann er rasisti. Hann er svikahrappur. Hann er svindlari.“
Sarah Huckabee Sanders, talskona Trump, sendi frá sér yfirlýsingu í gær þar sem hún kallaði Cohen smánarlegan glæpamann.
„Það er hlægilegt að einhver taki orðum dæmds lygara eins og Cohen alvarlega og ömurlegt að sjá hann fá enn eitt tækifærið til að dreifa lygum sínum,“ sagði Sanders, talskona Hvíta hússins, samkvæmt New York Times.
Michael Cohen will show Congress (Exhibit 5A) a copy of this $35K check that President Trump personally signed from his personal bank account on August 1, 2017 – when he was President to (per testimony) reimburse illegal hush money paid to Stormy Daniels
— Dave Briggs (@davebriggstv) February 27, 2019
via @GloriaBorger @CNN pic.twitter.com/dJ67pldPNt