Stórbrotin þrenna frá Messi

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Lionel Messi
Lionel Messi vísir/getty
Lionel Messi bauð upp á sýningu með þrennu af frábærum mörkum í sigri Barcelona á Real Betis í La Liga deildinni í kvöld.

Fyrsta mark leiksins kom beint úr aukaspyrnu. Messi og Luis Suarez stóðu báðir yfir henni en Messi tók spyrnuna og þrumaði henni glæsilega í fjærhornið.

Í uppbótartíma skoraði Argentínumaðurinn annað mark sitt. Barcelona vann boltann á miðjunni og sótti hratt. Suarez átti hælsendingu inn í hlaupaleið Messi sem skaut viðstöðulaust og endaði boltinn í netinu.

Luis Suarez vildi ekki að Messi tæki allt sviðsljósið og hann bauð upp á frábært einstaklingsmark á 63. mínútu, fór framhjá tveimur varnarmönnum og kláraði framhjá Pau Lopez.

Leikmenn Betis náðu sárabótamarki sem Loren Moron skoraði á 82. mínútu en það kom of seint.

Messi tryggði sér svo allar fyrirsagnirnar með þriðja markinu og var það enn eitt glæsimarkið. Af öllum þrennum sem Messi hefur skorað á ferlinum er þessi líklega ein sú fallegasta.

Leiknum lauk með 4-1 sigri Barcelona sem er með tíu stiga forskot á toppi deildarinnar.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira