Það eina sem vitað er um efni skýrslu Muellers um Rússarannsóknina kemur úr samantekt Barr sem hann birti um liðna helgi.
Í samantekt Barr segir að Mueller hafi komist að þeirri niðurstöðu að starfsmenn forsetaframboðs Donald Trump, eða aðilar sem tengdust því, hafi ekki með nokkrum hætti starfað með Rússum varðandi afskipti þeirra af kosningunum. Þrátt fyrir að þó nokkrir Rússar sem tengist yfirvöldum Rússlands hafi boðið framboðinu aðstoð.
Í skýrslunni var einnig ekki lagt mat á hvort að Trump hafi reynt að hindra framgang réttvísinnar en tók þess í stað saman yfirlýsingar og aðgerðir Trump sem mögulega væri hægt að flokka sem tilraunir til að hindra framgang réttvísinnar.
Barr, ásamt aðstoðardómsmálaráðherra, komust að þeirri niðurstöðu að að Trump hefði ekki reynt að hindra framgang réttvísinnar. Þessu hafa stuðningsmenn Trump fagnað mjög og nýtt samantekt Barr til þess að segja að skýrslan hreinsi Trump af öllum ásökunum, jafn vel þótt aðeins örfáir einstaklingar hafi haft aðgang að skýrslunni allri.

„Nei takk, herra dómsmálaráðherra“
Demókratar hafa farið fram á það að skýrslan verði gerð opinber auk þess sem þeir hafa krafist þess að fá að lesa skýrsluna. Pelosi segist ekki geta samþykkt niðurstöður Barr fyrir en að hún hafi fengið að lesa skýrsluna.„Ég hef sagt, og segi það aftur, nei takk herra dómsmálaráðherra, við þurfum ekki þína túlkun. Sýndu okkur skýrsluna og við munum draga okkar eigin ályktanir,“ sagði Pelosi fyrr í dag.
„Við þurfum ekki á þinni túlkun að halda. Hún var yfirlætisleg, þetta var hrokafullt og þetta var ekki það rétta í stöðunni. Því fyrr sem þeir geta veitt okkur þessar upplýsingar, því fyrr getum við lagt mat á skýrsluna,“ bætti Pelosi við.
Að hennar mati sé það ótækt að demókratar auk almennings þurfi að reiða sig á túlkun embættismanns sem Trump skipaði sjálfur til starfa.
Óvíst er hvort og þá hversu mikið af skýrslunni verður gert aðgengilegt almenningi. Í henni er töluvert af upplýsingum sem lögum samkvæmt má ekki greina frá opinberlega.