Handbolti

Ágúst og félagar unnu eftir framlengingu

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Ágúst Elí Björgvinsson.
Ágúst Elí Björgvinsson. Vísir/EPA
Ágúst Elí Björgvinsson og félagar í Sävehof tóku heimaleikjaréttinn af Malmö í fyrsta leik liðanna í 8-liða úrslitum sænsku úrvalsdeildarinnar í handbolta.

Malmö endaði í öðru sæti deildarinnar en Sävehof í því sjöunda og því byrjaði Malmö á heimavelli í einvíginu.

Heimamenn náðu að koma sér í fjögurra marka forystu þegar fyrri hálfleikur var rétt hálfnaður. Gestirnir unnu sig hægt og rólega til baka inn í leikinn og Viktor Ottosson jafnaði rétt fyrir hálfleik. Staðan var 13-13 þegar liðin gengu til búningsherbergja.

Seinni hálfleikurinn var í járnum og aldrei munaði meira en tveimur mörkum á liðunum. Robert Månsson jafnaði leikinn fyrir heimamenn þegar 14 sekúndur voru eftir, Sävehof fékk eina sókn til þess að sækja sigurinn en skot Oskar Sunnefeldt var varið og því þurfti að framlengja.

Sävehof tók yfirhöndina í framlengingunni og voru því skrefinu á undan heimamönnum. Heimamenn skoruðu bara eitt mark á fyrstu sjö mínútum framlengingarinnar og gestirnir komust í þriggja marka forystu.

Framlengingunni lauk með þriggja marka sigri Sävehof, 28-25. Þeir eru því komnir með yfirhöndina í einvíginu en vinna þarf þrjá leiki til að komast í undanúrslit.

Ágúst Elí átti góðan dag í marki Sävehof, hann varði 15 skot sem gerði rétt undir 40 prósenta markvörslu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×