Skoðun

Kyndilberar heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna

Hrund Gunnsteinsdóttir skrifar

Í marsmánuði vakti Festa, miðstöð um samfélagsábyrgð, athygli á heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna og þeirri staðreynd að ríkisstjórn Íslands hefur tengt þau inn í stefnur sínar og áætlanir til ársins 2030.

Festa er í samstarfi við verkefnastjórn stjórnvalda um heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna, auk þess sem störf Festu með aðildarfélögum snúast í ört vaxandi mæli um framkvæmd markmiðanna og árangur. Það er hvetjandi til þess að vita hversu hratt atvinnulífið hefur tileinkað sér þessi markmið eða hefur hafið þá vegferð að halda þau í heiðri.

Alls voru þrettán myndbönd birt á Facebook síðu Festu. Þau tilgreina hvaða markmið fyrirtæki úr ólíkum geirum leggja áherslu á í störfum sínum, stefnu stjórnvalda í þessum efnum og lýkur með samantekt og áhugaverðum staðreyndum

Tveir þriðju hluti landsmanna með puttann á púlsinum

Samkvæmt nýlegri könnun Gallup í samstarfi við verkefnastjórn heimsmarkmiðanna segjast 66% landsmanna þekkja eða hafa heyrt um heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Fyrir rúmu ári síðan var hlutfallið tæp 47% og því ljóst að vitund almennings á heimsmarkmiðunum fer ört vaxandi.

Viðamesta aðgerðaráætlun heimsins

Heimsmarkmiðin sautján og 169 undirmarkmið þeirra eru afrakstur áralangrar vinnu sem milljónir manna á öllum aldri, úr fjölmörgum geirum og frá 193 löndum hafa tekið þátt í að móta og gera enn. Það er því ekki að ástæðulausu sem Sameinuðu þjóðirnar tala um heimsmarkmiðin sem stærstu og viðamestu aðgerðaráætlun heims.

Sameinuðu þjóðirnar halda utan um gerð áætlunarinnar, en það eru ekki síður leiðandi fyrirtæki, félagasamtök, fjölmiðlar og almenningur víðs vegar um heim sem hafa lagt sitt á vogarskálarnar um að gera þau markviss, viðeigandi og árangursrík.

Ísland er engin undantekning í þeim efnum og Festa fagnar því víðtæka samstarfi sem á sér stað í tengslum við heimsmarkmiðin hér á landi.

Heimsmarkmið skipta máli

Heimsmarkmiðin voru þróuð í framhaldi af Þúsaldarmarkmiðum SÞ, sem runnu sitt skeið árið 2015. Þeim var beint sérstaklega að þróunarlöndum og fátækustu ríkjum heims. Samkvæmt rannsókn á árangri Þúsaldarmarkmiðanna sem Brookings Institute birti árið 2017, var stærsti sigurinn unnin í að bjarga mannslífum. Sérfræðingarnir áætla að á bilinu 21-29,7 milljónir manna séu á lífi í dag vegna þess sterka ásetnings og aðgerða sem Þúsaldarmarkmiðin stuðluðu að. Þá er tekið tillit til annarra aðgerða sem voru þegar í framkvæmd fyrir og samhliða Þúsaldarmarkmiðunum.

Skýr sýn í flóknum og ört breytilegum heimi

Vegir liggja til allra átta eins og segir í laginu. Í ljósi víðtækra breytinga sem eru að eiga sér stað í heiminum, með nýrri tækni, hnattvæðingu, loftslagsbreytingum og grundvallarbreytingum á ýmsum kerfum skiptir fátt meira máli en að hafa skýran undirliggjandi ásetning að baki nýsköpun, stjórnsýslu, viðskiptum, menntun og þróun. Markmiðið er ávallt að áhrif okkar á samfélög og jörðina séu sjálfbær og uppbyggileg. Það er þess vegna sem Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun ná til alls heimsins, ekki bara hluta hans.

Nú sem aldrei fyrr blandast þekkingarheimar, tækni og vísindi og möguleikarnir verða endalausir. Vísindaskáldsögur verða hversdags og ný tækni gerir okkur kleift að leysa áður óleysanleg verkefni. Í heimi þar sem bæði stærstu áskoranirnar og tækifærin eru hnattræn og víxlverkandi, erum við öll á sömu vegferð.

Höfundur er framkvæmdarstjóri Festu




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×