Erlent

Missouri bannar þungunarrof eftir átta vikur

Samúel Karl Ólason skrifar
Þinghúsið í Missouri.
Þinghúsið í Missouri. Vísir/AP
Repúblikanar á þingi Missouri í Bandaríkjunum hafa samþykkt frumvarp sem felur í sér bann við þungunarrofi eftir átta vikna meðgöngu. Frumvarpið var samþykkt með 24 atkvæðum gegn tíu í öldungadeild ríkisþings Missouri. Fulltrúadeildin á eftir að samþykkja það áður en frumvarpið verður lagt fyrir ríkisstjóra Missouri.

Repúblikanar eru í meirihluta í fulltrúadeildinni og þar að auki er Mike Parson, ríkisstjóri, Repúblikani og hefur hann þar að auki lýst yfir stuðningi við frumvarpið. Því þykir nánast öruggt að það verði að lögum.



Frumvarp Missouri felur í sér undanþágur vegna neyðartilfella en gerir þó þungunarrof þar sem sifjaspell eða nauðganir koma við sögu ólögleg. Þá gætu læknar sem brjóta gegn banninu verið dæmdir til fimmtán ára fangelsisvistar.



Missouri er einungis eitt nokkurra ríkja í Bandaríkjunum þar sem íhaldsmenn eru við stjórnartaumana þar sem ströng og í senn umdeild frumvörp um þungunarrof hafa verið samþykkt.

Öll þessi frumvörp munu líklegast fara fyrir dómstóla og á endanum fyrir Hæstarétt Bandaríkjanna. Repúblikanar vilja nota tækifærið sem hefur myndast með því að Donald Trump, forseti, hefur skipað tvo íhaldssama dómara í Hæstarétt til að fella niður úrskurð réttarins sem heimilar þungunarrof í Bandaríkjunum á alríkisvísu.

Sjá einnig: Þungunarrofslöggjöfin stranga í Alabama hluti af stærri mynd



Undanfarin ár hefur Hæstiréttur hafnað því að taka mál af þessu tagi fyrir og leyft úrskurðinum sem kallast Roe gegn Wade að standa. Sá úrskurður felur í sér að þungunarrof eiga að vera leyfð til um 22. til 24. viku.

Repúblikanar vonast til þess að nú verði breyting þar á.

Verði úrskurðurinn felldur úr gildi munu yfirvöldum hvers ríkis fyrir sig vera kleift að taka eigin ákvörðun um þungunarrof.

Elijah Haar, forseti öldungadeildarinnar í Missouri, segir frumvarp Repúblikana þar þó ekki eingöngu vera ætla til þess að fella Roe gegn Wade. Hann segir frumvarpið eiga að bjarga lífum.


Tengdar fréttir

Ein ströngustu þungunarrofslög Bandaríkjanna staðfest

Lögin kveða á um að þungunarrof sé bannað eftir að hjartsláttur greinist í fóstri. Læknar benda á að slíkt geti verið misvísandi og að margar konur viti ekki af því að þær séu óléttar á því stigi.

Þungunarrofslöggjöfin stranga í Alabama hluti af stærri mynd

Ríkisþingið í Alabama í Bandaríkjunum samþykkti í gær einhverja ströngustu þungunarrofslöggjöf sem fyrirfinnst í landinu. Löggjöfin bannar konum í öllum tilfellum að fara í fóstureyðingu nema að heilsu þeirra sé ógnað. Stjórnmálafræðingur segir þetta liður í stærra púsli til að hnekkja löggjöfinni fyrir hæstarétti Bandaríkjanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×