Háttsemi starfsmannsins, Skúla Þórs Gunnsteinssonar, hefur tvívegis orðið tilefni fjölmiðlaumfjöllunar, í báðum tilvikum vegna óviðeigandi ummæla í tölvupóstum sem hann sendi úr netfangi sínu í innanríkisráðuneytinu. Fyrst vegna konu sem stóð í sambúðarslitum við persónulegan vin Skúla Þórs og tveimur árum síðar um Afstöðu, hagsmunafélag fanga, og starfsmenn umboðsmanns Alþingis.
Sjá einnig: Fékk afsökunarbeiðni frá innanríkisráðuneytinu
„Afstaða og ráðuneyti dómsmála áttu mjög hreinskilið og afdráttarlaust samtal um Skúla Þór Gunnsteinsson eftir hans skelfilega særandi orð um talsmenn fanga. Í því samtali sannfærði ráðuneytisstjórinn okkur í Afstöðu um að Skúli fengi ekki að starfa við málaflokkinn að nýju,“ segir Guðmundur Ingi Þóroddsson, formaður Afstöðu, sem kom af fjöllum þegar blaðamaður bar undir hann skipun Skúla Þórs.
Árið 2016 lét Skúli, sem þá fór með fangelsismál í innanríkisráðuneytinu, niðrandi orð falla um Afstöðu, félag fanga, í tölvupósti til skrifstofustjóra í ráðuneytinu. Formaður Afstöðu fékk afrit af póstinum af misgáningi. Í sama tölvupósti lét Skúli einnig óviðeigandi orð falla um starfsmenn umboðsmanns Alþingis en erindi tölvupóstsins var fyrirhuguð svör ráðuneytisins við fyrirspurn umboðsmanns í máli sem varðaði málefni fanga.

Aðspurður segir Guðmundur Ingi að þrátt fyrir að Skúli Þór sé ekki beinlínis að móta stefnu í málefnum fanga lengur sé hann að skapa fordæmi fyrir lögreglu í starfi og augljóslega þannig að hafa áhrif innan réttarvörslukerfisins þar sem hann hefur þegar fyrirgert trausti sínu. „Þegar kemur að óháðum vörðum í kerfi okkar, þá ber að finna þá sem flekklausir eru,“ segir Guðmundur Ingi.
Árið 2014 kvartaði kona undan Skúla Þór við innanríkisráðuneytið vegna orða sem hann lét falla um hana í tölvupósti til starfsmanns Barnaverndarstofu. Efni tölvupóstsins var sambúðarslit konunnar við persónulegan vin Skúla. Lét hann ýmis niðrandi orð falla um konuna og meinta persónubresti hennar í póstinum sem var skrifaður úr netfangi ráðuneytisins. Ráðuneytið bað konuna afsökunar.
Formaður nefndar um eftirlit með störfum lögreglu er skipaður af dómsmálaráðherra til fjögurra ára. Í desember síðastliðnum óskaði þáverandi formaður nefndarinnar, Trausti Fannar Valsson, lausnar frá formennsku, vegna anna í aðalstarfi sínu, en hann er dósent við lagadeild Háskóla Íslands. Sigríður Á. Andersen, þáverandi dómsmálaráðherra, skipaði Skúla Þór formann nefndarinnar í hans stað.
Í svari dómsmálaráðuneytisins við fyrirspurn blaðsins segir að ráðuneytinu sé kunnugt um framangreind atvik. „Það er mat ráðuneytisins að Skúli Þór hafi dregið lærdóm af því sem vísað er til í fyrirspurninni og það komi ekki í veg fyrir að hann taki að sér verkefni í framtíðinni.“
Hlutverk nefndar um eftirlit með lögreglu:
Að taka við kæru á hendur starfsmanni lögreglu fyrir ætlað refsivert brot við framkvæmd starfa hans;Að taka við kvörtun vegna starfsaðferða lögreglu eða framkomu starfsmanns lögreglu sem fer með lögregluvald;
Að taka til athugunar mál þegar maður lætur lífið eða verður fyrir stórfelldu líkamstjóni í tengslum við störf lögreglu, óháð því hvort grunur er um refsivert brot;
Að taka atvik og verklag lögreglu til skoðunar að eigin frumkvæði þegar nefndin telur tilefni til.