Innlent

„Ekkert annað í stöðunni“ en að vísa við­ræðum til ríkis­sátta­semjara

Sylvía Hall skrifar
Hjálmar Jónsson er formaður Blaðamannafélagsins.
Hjálmar Jónsson er formaður Blaðamannafélagsins. Vísir/Stefán
Hjálmar Jónsson, formaður Blaðamannafélagsins, segir að kjaraviðræðum Blaðamannafélagsins og Samtaka atvinnulífsins verði vísað til ríkissáttasemjara en samningsaðilar funduðu í morgun. Hann segir það vera það eina í stöðunni eftir tveggja mánaða viðræður.

„Það er í rauninni ekkert annað að gera. Við erum búin að vera í viðræðum í tvo mánuði og það eru sérmál á hverjum miðli fyrir sig og þau hafa gengið mjög illa. Við sjáum ekki annað í stöðunni heldur en að vísa þessu til ríkissáttasemjara til þess að þrýsta á alvöru viðræður,“ segir Hjálmar í samtali við Vísi. 

„Við þurfum bara að auka þrýstinginn og aðlaga þennan ramma sem kominn er að okkar hagsmunum og hagsmunum stéttarinnar.“

Hann segist vongóður um að niðurstaða komist í viðræðurnar enda sé það yfirleitt þannig að samningsaðilar komist að samkomulagi á endanum. 

„Kjaraviðræður leysast alltaf fyrir rest en það er alveg ljóst að það eru þarna sérmál sem við höfum ekki fengið alvöru viðræður um sem þarf að klára áður en við förum að takast á um þennan heildarramma,“ segir Hjálmar að lokum. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×