Donald Trump Bandaríkjaforseti segist ekki vilja fara í stríð við Íran, en varar við því að ef til hernaðarátaka kæmi myndi Íran standa frammi fyrir gjöreyðingu.
Þetta kom fram í viðtali hans við NBC sjónvarpstöðina í gær. Þar sagði forsetinn að Bandaríkin væru tilbúin til viðræðna við írönsk stjórnvöld. Hann muni þó aldrei leyfa ríkinu að þróa kjarnorkuvopn.
Í viðtalinu ítrekaði Trump einnig ummæli sín um að Bandaríkjaher hafi verið tilbúinn að gera árás á írönsk skotmörk í hefndarskyni, en að honum hafi snúist hugur.
Forsetinn sagði þó ekkert vera til í þeim fregnum að loftför hafi verið komin í loftið og nálgast skotmörk sín þegar hann hætti skyndilega við árásina.
Spenna milli ríkjanna hefur farið vaxandi á undanförnum misserum, einkum eftir að Bandaríkin sökuðu Íran um að hafa gert árás á olíuskip í Ómanflóa.
Þessi spenna náði nýju hámarki þegar Íran skaut niður mannlausan eftirlitsdróna Bandaríkjahers fyrr í vikunni.
Hafa ríkin tvö einkum deilt um það hvort bandaríski eftirlitsdróninn hafi verið í íranskri lofthelgi þegar hann var skotinn niður.
Bandaríkin hafa óskað eftir því að Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna komi saman á mánudag til að ræða málefni Íran.
