Tilkynning um að flugvél hefði hlekkst á, í flugtaki á Haukadalsflugvelli á Rangárvöllum nærri Heklurótum barst lögreglu klukkan 14:23 í dag.
Samkvæmt upplýsingum af vettvangi var flugmaðurinn einn um borð í vélinni en hann slasaðist alvarlega þegar vélin sporðreistist í flugtaki. Viðbragðsaðilar eru komnir á staðinn.
Samkvæmt upplýsingum frá Landhelgisgæslunni fór þyrla gæslunnar í loftið vegna slyssins en var síðar snúið við þar sem ekki var talin þörf á henni.
Þetta er í annað sinn sem flugslys á sér stað á Haukadalsflugvelli á tveimur dögum, en í gær hlekktist flugvél þar á í lendingu. Vélin snerist þá í lendingu og stöðvaðist á hvolfi á jörðu niðri.
Fréttastofan hefur heimildir fyrir því að flughátíð hafi farið fram þegar slysið átti sér stað og að fjöldi fólks hafi orðið vitni að slysinu.

Hér fyrir neðan má sjá staðsetningu Haukadalsflugvallar þar sem slysið átti sér stað.