Búast má við tímabundnum umferðartöfum víða á höfuðborgarsvæðinu í kvöld og allan daginn á morgun vegna opinberra heimsókna sem nú standa yfir. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.
Angela Merkel, kanslari Þýskalands, kom til landsins í dag og tók Katrín Jakobsdóttir á móti Stefan Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar, í morgun. Fjöldi þjóðarleiðtoga streyma nú til landsins í tilefni af sumarfundi leiðtoga Norðurlandanna sem fram fer á morgun. Auk forsætisráðherra Norðurlandanna verða þar leiðtogar Grænlands, Álandseyja og Færeyja auk Angelu Merkel sem verður þar sérstakur gestur.
Þjóðarleiðtogarnir munu njóta fylgdar lögreglu á meðan opinberri heimsókn þeirra stendur og telur lögregla að reikna megi við töfum sökum þessa. Lögreglan biður vegfarendur um að sýna töfunum þolinmæði og tillitssemi.
Lögreglan varar við umferðartöfum í dag og á morgun vegna heimsókna

Tengdar fréttir

Merkel kemur til Íslands í næstu viku
Þýski kanslarinn verður sérstakur gestur fundar forsætisráðherra Norðurlandanna í Reykjavík á þriðjudag.

Löfven fyrsti ráðherrann í fundarröð Katrínar með erlendum leiðtogum í dag
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra tók á móti Stefan Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar í Hellisheiðarvirkjun í dag.

Leiðtogar koma til landsins
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra tekur í dag á móti Stefan Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar, Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, og Antti Rinne, forsætisráðherra Finnlands.