Argentínski knattspyrnumaðurinn Emiliano Sala og breskur flugmaður önduðu að sér miklu magni kolmónoxíðs áður en flugvél þeirra hrapaði í Ermarsund í janúar. Rannsókn leiddi í ljós að styrku kolmónoxíðs í blóði Sala var svo hár að hann hefði getað fengið flog, misst meðvitund eða fengið hjartaáfall.
Sala og flugmaðurinn David Ibbotson fórust með lítilli flugvél 21. janúar. Knattspyrnumaðurinn var á leið frá Nantes í Frakklandi til Cardiff í Wales þangað sem hann hafði verið seldur.
Eiturefnagreining á líki Sala leiddi í ljós gaseitrunina en lík Ibbotson hefur ekki fundist, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC. Allar líkur eru þó taldar á að flugmaðurinn hafi orðið fyrir sömu eitrun. Styrkur kolmónoxíðs í blóði Sala mældist 58%. Rannsóknarnefnd flugslysa á Bretlandi segir að styrkur yfir 50% sé vanalega banvænn fyrir fólk sem er að öðru leyti heilsuhraust.
Rannsókn slyssins beinist nú að því hvernig kolmónoxíðleki gæti hafa komið upp inni í flugvélinni. Fjölskylda Sala telur niðurstöðuna kalla á ítarlega tæknilega rannsókn á flugvélinni sjálfri.
Sala og flugmaðurinn urðu fyrir gaseitrun
Kjartan Kjartansson skrifar
