Erlent

Verkamannaflokkurinn klofinn í herðar niður

Kristinn Haukur Guðnason skrifar
Jeremy Corbyn reynir að halda báðum hópum góðum.
Jeremy Corbyn reynir að halda báðum hópum góðum. Nordicphotos/Getty
Jeremy Corbyn, leiðtogi Verkamannaflokksins, er í vanda vegna afstöðunnar til útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu. Hart var tekist á um málið á landsþingi flokksins í Brighton í gær.

Corbyn hefur reynt að sætta ólík viðhorf til útgöngunnar. Bæði Íhaldsflokkurinn og Frjálslyndir demókratar fóru sinn í hvora áttina. Boris Johnson hefur rekið þá sem ekki styðja harðlínustefnu hans úr flokknum og Jo Swinson sagði á flokksþingi Frjálslyndra að hún myndi draga útgönguna til baka við dynjandi lófaklapp.

Stefna Corbyns er nú að sækja um útgöngusamning og gefa fólki kost á að velja hann eða hafna útgöngunni í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Á landsþinginu hafa þeir sem vilja að flokkurinn taki harðari afstöðu gegn útgöngu verið háværir en Corbyn hefur viljað fresta umræðunni.

Skuggautanríkisráðherrann Emily Thornberry sagðist mjög óánægð með afstöðu Corbyns því að kosningar væru óumflýjanlegar á næstu vikum eða mánuðum. Sagði hún óákveðnina valda því að aðrir flokkar sem tækju afgerandi afstöðu myndu hirða fylgi flokksins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×