Innlent

Með lög­regluna á hælunum með fullan BMW af kókaíni

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Fólkið var handtekið við bílaverkstæði við Gjáhellu þar sem þau virðast hafa ætlað að reyna að nálgast efnin sem falin voru í bílnum.
Fólkið var handtekið við bílaverkstæði við Gjáhellu þar sem þau virðast hafa ætlað að reyna að nálgast efnin sem falin voru í bílnum. Vísir/Vilhelm

Tveir karlmenn og ein kona hafa verið ákærð fyrir innflutning á 5,7 kílóum af kókaíni sem falin voru í BMW-bíl sem ferðaðist frá Íslandi til Litáen og aftur til Íslands með flutningsskipi. Fólkið beið í fimm daga áður en það reyndi að nálgast efnin í bílnum.

Það var þann 30. apríl sem karl og kona keyptu BMW-bíl í gegnum fyrirtæki konunnar og fluttu út til Litáens nokkrum dögum síðar. Bíllinn var svo fluttur aftur til Íslands frá Hirtshals í Danmörku 10. júní og kom til hafnar í Þorlákshöfn þann 16. júní.

Lögreglan virðist hafa haft veður af innflutningnum og fylgst með ferðum ákærðu. Karlmaðurinn sótti bílinn til tollstjóra að Vesturvör í Kópavogi þann 3. júlí og ók honum að bílastæði við Nettó við Seljabraut í Breiðholti.

Þar stóð bíllinn til 6. júlí þegar maðurinn færði bílinn yfir á bílastæði við Mini Market við Drafnarfell í Breiðholti. Daginn eftir ók annar karlmaður bílnum að verkstæði við Gjáhellu í Hafnarfirði þar sem hann, síðar þann dag, hitti karlinn og konuna.

Það var svo 8. júlí sem þau voru öll samankomin við verkstæðið á nýjan leik, bílnum var ekið inn og upp á bílalyftu þegar lögregla lét til skarar skríða og handtók öll þrjú.

Fram kemur í ákærunni að fíkniefnin hafi fundist í drifskafti og grindarbitum bílsins þann 24. júní, áður en bíllinn var sóttur til tollstjóra, og svo þann 11. september eða mörgum vikum eftir að lagt var hald á hann.

Héraðssaksóknari gerir kröfu um upptöku á efnunum og jafnframt BMW-bílnum og sex farsímum sem ákærðu notuðu við brotið. Málið verður til aðalmeðferðar við Héraðsdóm Reykjaness í desember.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×