Innlent

Sonur Sævars segir Valtý lögmann eiga ríkra hagsmuna að gæta

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Úr viðtali við Valtý Sigurðsson árið 1974.
Úr viðtali við Valtý Sigurðsson árið 1974.
Hafþór Sævarsson, sonur Sævars Ciesielski, kemur Erlu Bolladóttur til varnar í nýrri grein. Um er að ræða viðbrögð Hafþórs við þeirri skoðun þriggja karlmanna sem sátu í gæsluvarðhaldi í 105 daga árið 1976 að ekki eigi að greiða Erlu skaðabætur án þess að hún verði formlega sýknuð af dómi fyrir rangar sakargiftir.

Valtýr Sigurðsson lögmaður sendi bréf til Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra fyrir hönd Einars Bollasonar, Magnúsar Leópoldssonar og Valdimars Olsen þar sem þessari skoðun þeirra er komið á framfæri. Stundum nefndir Klúbbmenn þótt Magnús hafi verið sá eini sem hafði raunverulega tengingu við staðinn sem framkvæmdastjóri samnefnds skemmtistaðar.

Þremenningarnir hittust á dögunum í kjölfar þess að út spurðist að Erla Bolladóttir legði til við forsætisráðherra að hún fengi greiddar bætur vegna dóms sökum rangra sakargifta. Endurupptökunefnd hefur hafnað því að mál Erlu verði endurupptekið og væru bæturnar því greiddar án þess að hún hefði verið sýknuð.

Valtýr Sigurðsson lögmaður og fyrrverandi ríkissaksóknari og dómari.

Gervirannsókn í Keflavík

Erla var á sínum tíma dæmd ásamt Sævari og Kristjáni Viðari Viðarssyni fyrir að færa sakir á fyrrnefnda þrjá og tengja við hvarf Geirfinns Einarssonar.

Hafþór bendir á að Valtýr Sigurðsson eigi persónulegra og ríkra hagsmuna að gæta í málinu sem snúi að því að málið verði áfram skrifað á ungmennin en ekki meinta rannsóknaraðila sem eru viðriðnir málið. Hann segist nota orðið meinta vegna þess að þeir hafi í raun aldrei rannsakað neitt heldur búið til tiltekna sögu.

„Það vill svo til að Valtýr þessi tilheyrði gervirannsókninni í Keflavík (1974) sem rannsakaði ekki afdrif Geirfinns Einarssonar,“ segir Hafþór. Vísar hann til þess að Valtýr stýrði frumrannsókninni á hvarfi Geirfinns Einarssonar sem fulltrúi sýslumanns í Keflavík á sínum tíma.

Hafþór rekur málið nokkuð ítarlega í greininni og vísar í lögregluskýrslur frá áttunda áratugnum. Þá veltir hann verulega fyrir sér orðum Valtýs í bréfinu til forsætisráðherra.

„Það hlýtur að vera verulegt umhugsunarefni hvað komi alsaklausum aðila, eins og Erla telur sig vera, til að spinna upp framburð sem þennan og bera þá Einar, Magnús og Valdimar slíkum sökum og þar með einnig sjálfa sig. Framburð sem var svo trúverðugur að reyndir rannsóknarlögreglumenn létu blekkjast lengi,‘ segir Valtýr í bréfinu.

Magnús Leopoldsson segir framburð Erlu á sínum tíma hafa verið mjög sannfærandi. Hún bar vel á annan tug sinnum, í skýrslutöku hjá lögreglu og fyrir dómi, að þremenningarnir hefðu átt aðild að máli Geirfinns Einarssonar.Fréttablaðið/GVA

Aðstæður allt aðrar

Haft er eftir Magnúsi í bréfinu til forsætisráðherra að honum hefði aldrei dottið í hug að bendla saklaust fólk við málið þótt að honum hefði verið sótt. Hafþór segir stöðu Magnúsar allt aðra en Sævars, Erlu og Kristjáns. Einar, Magnús og Valdimar hafi aldrei þurft að bendla neinn annan við málið því þegar þeir höfðu verið handteknir hafi allt verið klárt. Engin þörf að benda á neina eins og hin þrjú hafi verið pressuð á að gera.

Hafþór vitnar í skrif Evu Hauksdóttur um málið á Kvennablaðinu á sínum tíma.

„Við getum vonandi verið sammála um að ekki sé forsvaranlegt að dæma fólk til refsingar á grundvelli þvingaðra játninga eða falskra minninga um eigin sök, sem rannsakendur bera ábyrgð á. Sú afstaða Endurupptökunefndar að sömu ástæður séu ekki efni til endurupptöku þegar vitnisburður beinist gegn öðrum, er í besta falli óskiljanleg. Í versta falli bendir hún til víðtæks skilningsleysis á aðstæðum sakborninga í málinu og áhugaleysi um rannsóknir á sönnunargildi vitnisburða,“ segir Eva.

„Í raun er „í versta falli“ mun alvarlegra en rakið er hér,“ segir Hafþór.

„Í versta falli hefur yfirhylmingunni og samtryggingunni verið haldið áfram með þessum úrskurði, þar sem ásetningur og frumkvæði er áskilið til að hægt hefði átt að vera að dæma þau fyrir að bera sakir á Klúbbmenn og co. Engin ásetningur né frumkvæði var til staðar og gífurlega dapurlegt að þetta atriði var ekki tekið upp í það skipti hjá endurupptökunefnd. Björn L. Bergsson fékk að launum skrifstofustjóra embætti hjá Landsrétti, eftir þessa lögfræði leikfimi háloftanna.“

Vísar Hafþór til þess að Björn, fyrrverandi formaður endurupptökunefndar, gegnir nú starfi skrifstofustjóra Landsréttar.

Hafþór hefur fjallað ítarlega um Guðmundar- og Geirfinnsmálin í skrifum sínum undanfarin ár.Vísir

Telur Erlu aldrei hafa bendlað Valdimar við málið

Jón Daníelsson, sem skrifaði bók um uppgjör Guðmundar- og Geirfinnsmálana, fjallaði ítarlega um það í pistli á Stundinni sem hann kallaði gallaða niðurstöðu endurupptökunefndar þegar kæmi að þætti Erlu Bolladóttur. Hann bendir meðal annars á að Erla hafi aldrei borið rangar sakir á Valdimar Olsen.

„Þá man ég eftir Einari bróður mínum og Valdimar Olsen held ég að hafi einnig verið staddur þarna,“ segir í yfirheyrslu yfir Erlu þann 3. febrúar 1976. Jón bendir á að Erla fullyrði augljólega aldrei að Valdimar hafi verið þarna staddur.

„Í skýrslunni er heldur engin skýring á þessari ágiskun. Kannski sá Erla manninn ekki nógu vel til að geta fullyrt neitt, en hún gæti líka allt eins haft það eftir einhverjum öðrum að Valdimar hefði verið þarna. Skýrslan er skráð eins og bein frásögn Erlu sjálfrar, en við vitum auðvitað mætavel að þannig verða engar lögregluskýrslur til. Skrásetjarinn þarf alltaf að spyrja einhvers, en hér er engra spurninga getið og við getum því meira að segja leyft okkur að giska á að lögreglumaðurinn hafi nefnt Valdimar að fyrra bragði,“ skrifaði Jón í grein í Stundinni í maí 2017.

Seinna skiptið sem Erla nefndi Valdimar Olsen var í yfirheyrslu 1. september 1976. Þar vísar Erla í samtal sem hún sagðist hafa átt við Sævar.

„Sævar sagði við mig að þeir væru þarna allir og nefndi þá Valdimar Ólsen Sigurbjrön[svo], Eiríksson, Magnús Leópoldsson, Rolf Jóhansen, Guðlaug Bergmann, Jósafat Arngrímsson og Einar bróður minn.“

Það geti varla talist trúverðugur vitnisburður að hafa nafn eftir einhverjum öðrum. Enn vitlausara sé að mati Jóns að ákæra Erlu fyrir þennan framburð en þann fyrri.

„Niðurstaðan er skelfilega einföld. Það var aldrei nein lögmæt ástæða fyrir þessari ákæru á hendur Erlu.“

Styttan af Leirfinni er líklega ein frægasta stytta Íslandssögunnar, í það minnsta í fréttalegu samhengi. Hún var til sýnis fyrir almenning á Ljósmyndasafni Reykjavíkur árið 2017.Fréttablaðið/Anton Brink

Undarlega staðið að teikningu Leirfinns

Fróðlegt er að rifja upp hvernig nafn Magnúsar Leópoldssonar komst upphaflega í umræðuna í tengslum við rannsókn málsins árið 1974. Þannig var að gerð var leirstytta af huldumanni sem átti að hafa komið inn í Hafnarbúðina í Keflavík kvöldið sem Geirfinnur hvarf.

Myndir af leirstyttunni voru birtar í blöðunum og sjónvarpsfréttum og lýst eftir manninum.

„Já, þetta teljum við, vonum við allavega, að sé maðurinn sem næst ekki í. Þetta er byggt samkvæmt upplýsingum sjónarvotta og unnið í samvinnu við hann. Við munum finna þennan mann, það er ekkert vafamál. Það er ekki um það marga menn að ræða með svona lýsingu. Og við vitum að hann talar íslensku,“ sagði Valtýr Sigurðsson, lögmaður þremenninganna í dag en þáverandi fulltrúi bæjarfógetans í Keflavík í viðtali.

Athygli vakti að eina konan sem vitað er til að sá manninn í Hafnarbúðinni var ekki höfð með í ráðum. Því greindi hún frá í heimildarmynd Sigursteins Mássonar á sínum tíma. Sömuleiðis sagði Magnús Gíslason teiknari að hann hefði verið beðinn um að teikna eftir einni ljósmynd. Hann staðfesti að myndin, sem lögregla afhenti honum, hefði verið af Magnúsi Leópoldssyni.

Í framhaldinu af fjölmiðlaumfjöllun 1974 bárust ábendingar um að styttan þætti sláandi lík Magnúsi.

Umfjöllun í myndinni má sjá frá 08:40 hér að neðan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×