Bakkafrost keypti í nýliðinni viku 9 prósenta hlut í skoska fyrirtækinu til viðbótar við 69 prósenta hlut, sem það keypti hálfum mánuði fyrr, en við það myndaðist yfirtökuskylda á öllum hlutabréfum. Heildarkaupverð alls fyrirtækisins er 517 milljónir punda, eða sem svarar 82 milljörðum íslenskra króna.
Skoska eldisfyrirtækið, sem er með höfuðstöðvar í Edinborg, státar sig af því að hafa forskot á keppinauta sína með aðgengi sínu að erfðaefni hins staðbundna Suðureyjalax, eða Hebridean-laxinum. Sá stofn er sagður sterkari, grennri og stinnari en Atlantshafslaxinn, sem er algengari í laxeldinu, að því er fram kemur í frétt BBC um kaupin.

Fyrirtækið er skráð í kauphöllinni í Osló og eru hluthafar yfir þrjúþúsund talsins í 22 löndum. Stærstu eigendur eru forstjórinn Regin Jacobsen, með 9,2 prósenta hlut, og móðir hans, Oddvør Jacobsen, með 9,4 prósenta hlut, en með eignarhlutum sínum teljast þau vera ríkustu Færeyingar sögunnar.
Þess má geta að forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, kynnti sér starfsemi Bakkafrosts í heimsókn sinni til Færeyja vorið 2017, og þá töluðu menn saman á íslensku og færeysku, eins og heyra má í þessari frétt Stöðvar 2: