Íslenskur karlmaður er í haldi lögreglunnar á Spáni vegna gruns um fíkniefnamisferli. Hann var handtekinn á flugvellinum í Barcelona í síðustu viku er hann hugðist ferðast þaðan til Íslands. Mikið magn kókaíns fannst í farangri mannsins.
Heimildir Fréttablaðsins herma að um rúmlega 5 kíló hafi verið að ræða. Alþjóðadeild Ríkislögreglustjóra hefur ekki svarað fyrirspurn blaðsins um hvort lögregluyfirvöld á Spáni hafi óskað eftir samstarfi vegna málsins en miðlæg rannsóknardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu hafði ekki fengið slíka beiðni síðdegis á föstudag.
Lagt hefur verið hald á mikið magn af kókaíni hér á landi á þessu ári. Í maí voru tveir Íslendingar teknir í Leifsstöð með 16 kíló falin í ferðatöskum. Tveir voru teknir með 5,5 kíló í Leifsstöð í september. Þá voru fimm kíló af kókaíni falin í bíl sem kom til landsins með Norrænu í ágúst.
Alls hefur verið lagt hald á meira en 30 kíló af kókaíni við komu til landsins í ár. Kókaín er talsvert dýrara en önnur fíkniefni. Samkvæmt tölum SÁÁ hefur götuvirðið lækkað nokkuð frá árslokum 2017, farið úr rúmum 18 þúsund krónum fyrir grammið niður í 14 þúsund.
Sérstök umræða fór fram á Alþingi um fíkniefnafaraldur nýverið. Fram kom í máli Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra að í fyrra hafi meira en helmingur innlagna á Vog verið vegna fíknar í örvandi efni.
Tekinn með kókaín á Spáni
Ari Brynjólfsson skrifar
