Lögreglustjórinn á Norðurlandi eystra hefur ákært karlmann fyrir ofbeldisbrot í nánu sambandi með því að hafa tvisvar á árinu 2017 ráðist á unnustu sína, með þeim afleiðingum að hún hlaut mikla áverka og var í annað skiptið óvinnufær í nokkra daga eftir árásina.
Í ákæru yfir manninum er brotum hans lýst. Fyrri árásin átti sér stað sumarið 2017. Þá réðst maðurinn á konuna og sneri upp á hendi hennar með þeim afleiðingum að hún var frá vinnu í nokkra daga.
Þá er manninum gefið að sök að hafa ráðist á konuna í seinna skiptið 2. desember 2017 á hótelherbergi, tekið hana hálstaki, kýlt hana í höfuð og líkama og lagt fót sinn á fót hennar og haldið henni þannig niðri í rúmi.
Konan hlaut töluverða áverka í árásinni, punktablæðingar og eymsli bæði framan og aftan á hálsi, eymsli á hægri kjálkalið, mar og bólgu á læri og marblett framan á rist.
Þess er krafist að maðurinn verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar. Þá fer unnustan fram á bætur frá manninum að upphæð 1,4 milljónar króna.
Tók unnustu sína hálstaki og kýldi hana inni á hótelherbergi
Kristín Ólafsdóttir skrifar
