Suleyman Soylu, innanríkisráðherra Tyrklands, lýsti því yfir í gær að handsamaðir meðlimir hryðjuverkasamtakanna sem kenna sig við íslamskt ríki (ISIS) verði sendir aftur til heimalanda sinna.
Soylu gagnrýndi í sömu andrá aðgerðarleysi Evrópuríkja í málefnum fanganna. Fangarnir sem höfðu margir hverjir sloppið úr fangageymslum í Sýrlandi voru handsamaðir aftur af Tyrkjum eftir að umdeildar hernaðaraðgerðir þeirra hófust í norðausturhluta Sýrlands.
Innanríkisráðherrann lét hafa eftir sér að Tyrkir væru ekki að reka „hótel fyrir meðlimi ISIS.“
„Við munum senda handsömuðu ISIS meðlimina aftur til sinna landa,“ bætti Soylu við.
Mörgum Evrópuþjóðum hefur reynst erfitt að eiga við það hvernig skuli taka á móti hermönnum samtakanna og fjölskyldum þeirra þegar fólkið snýr aftur frá átakasvæðum í Írak og Sýrlandi.
Sum ríki, á borð við Frakkland og Bretland, hafa fram að þessu neitað að taka aftur við bardagamönnum samtakanna og eiginkonum þeirra en gert undantekningar fyrir börn.
