Malín Agla dansar nú við bardagakappann Jón Viðar Arnþórsson í þáttunum Allir geta dansað sem hefjast á Stöð 2 í næstu viku. Hún á von á sínu fyrsta barni í apríl og segir að meðgangan hafi engin áhrif á keppnina. Hún er úr Reykjavík en einnig ættuð frá Tælandi. Hún segist hafa upplifað fordóma hér á landi vegna uppruna síns og útliti en það koma fram í viðtali við Vísi á dögunum.
Jón er einn af stofnendum og eigendum ISR Matrix Iceland og Mjölnis. Hann starfar í dag við það að þjálfa fyrirtæki, stofnanir og einstaklinga í neyðarvörn og öryggistökum auk þess sem ég sér um slagsmálaatriði og áhættuatriði í íslenskum kvikmyndum og þáttum.
„Ég hef stundað bardagaíþróttir í 23 ár, starfað í lögreglunni og farið í gegnum sérsveitarþjálfun. Ég hef þjálfað hættulegustu konur og menn landsins. Í þessu öllu líður mér vel. En þegar kemur að því að dansa, þá verð ég mjög lítill í mér og óöryggið sést langar leiðir,“ sagði Jón Viðar í viðtali við Vísi á dögunum.
Dómarar í ár verða þeir sömu og í fyrstu seríunni:
• Selma Björnsdóttir
• Karen Reeve
• Jóhann Gunnar Arnarson
Vilhelm Gunnarsson ljósmyndari Vísis leit við á æfingu hjá Jóni og Malin og fangaði stemninguna hjá dansparinu.

