Máté Dalmay heldur áfram sem þjálfari karlaliðs Hamars sem leikur í næst efstu deild. Dalmay lét KKÍ heyra það í kjölfar ákvörðunar sambandsins um að blása tímabilið hér heima af.
Var samningur hans framlengdur um eitt ár í dag. Frá þessu var greint á Facebook-síðu körfuknattleiksdeild Hamars.
Sjá einnig: Brjálaður út í KKÍ | Eins og að missa einhvern nákominn
Lið Hamars var í 2. sæti fyrstu deildar með 19 sigurleiki og aðeins þrjú töp þegar Körfuknattleikssamband Íslands ákvað að aflýsa tímabilinu hér heima og þar með ljóst að Hamar kemst ekki upp í Domino´s deild karla að sinni.
Dalmay var vægast sagt ósáttur með ákvörðun KKÍ eins og var fjallað um hér á Vísi sem og í Sportpakka Stöðvar 2. Þá taldi körfuknattleiksdeild Hamars ákvörðun KKÍ ólöglega.