Tíu árum eftir eldgosið í Eyjafjallajökli er gróður farinn að breiða úr sér yfir aurinn sem fyllti lónsstæði Gígjökuls og græn slikja er komin yfir hraunið sem rann frá Fimmvörðuhálsi. Þetta mátti sjá í fréttum Stöðvar 2.
Eitthvert magnaðasta sjónarspilið í gosinu var við Gígjökul þegar kolmórautt bræðsluvatnið frá gosinu sturtaðist úr toppgígnum og fyllti jökullónið á aðeins hálftíma.
Sjá hér: Fyrstu sólarhringar eldgossins í toppgíg Eyjafjallajökuls
En það voru líka eftirminnilegar myndir af hrauninu sem rann frá gígunum á Fimmvörðuhálsi en það barst langar leiðir niður með Hrunagili.
Sjá hér: Fyrir tíu árum flykktist fólk á Fimmvörðuháls
Þegar við fljúgum yfir Hrunagil tíu árum síðar er hraunið ekki lengur kolsvart heldur komin græn slikja yfir það.

Og það sama sjáum við þegar við rennum okkur yfir fyrrum lónsstæði við Gígjökull. Öskugrár aurinn frá gosinu er smámsaman að verða grænn. Þar sjást núna mosi og allskyns smágróður.
„Já, þetta fylltist upp. Við erum núna í talsverðri hæð yfir upphaflegum lónbotni og athyglisvert að sjá hérna líka hvernig gróðurinn er að ná hér fótfestu. Hér er allt að fyllast af mosa og öðrum gróðri,“ segir Páll Einarsson jarðeðlisfræðingur.

„Þannig að náttúran heldur áfram sínu þó að stundum slettist upp á vinskapinn," segir Páll í viðtali á staðnum, sem tekið var síðastliðið haust í kvikmyndatöku vegna sjónvarpsþátta Stöðvar 2 í tilefni tíu ára afmælis eldgossins, en þá má nálgast á Maraþoni Stöðvar 2.
„Já, þetta er náttúrlega alveg magnað að sjá. Hér er bara að koma upp mosi og annar lággróður,“ segir Ólafur Eggertsson, bóndi á Þorvaldseyri.

„Þetta er bara að sá sér út og þetta mun bara gróa upp á næstu 15-20 árum. Þá verður þetta orðið bara ein heild.“
-Kannski munum við bara sjá birkiskóg hér á endanum?
„Ja, ég veit ekki. Það er náttúrlega ekki langt í hann hérna hinumegin við, í Básum og inni í Þórsmörk. En af hverju ekki? Hérna geta hugsanlega orðið skilyrði fyrir það, eins og annarsstaðar hefur sést á svona samskonar landi,“ segir Ólafur.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: