Ný rannsókn sem birtist í nýjasta hefti vísindatímaritsins Nature sýnir að gildi slæms kólesteróls, það er kólesteróls sem eftir er þegar svokallað gott HDL-kólesteról hefur verið dregið frá, hefur hækkað mest í Asíuríkjum og lækkað mest á Vesturlöndum. Slæma kólesterólið hefur lækkað næst mest í heiminu frá árinu 1980 á Íslandi og er Ísland með næst lægsta gildi í Evrópu. Þetta á við bæði um konur og karla.
Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Hjartavernd. Hjá Hjartavernd er rekin eina hérlenda rannsóknarstöðin í þessum efnum, en þar hefur gögnum um áhættuþætti tengda krónískum langvinnum sjúkdómum hefur verið safnað kerfisbundið frá 1967.
„Vonda kólesterólið hefur lækkað mest í Belgíu en Norðurlandaþjóðirnar, Finnland, Noregur, Danmörk og Svíþjóð eru í hópi þeirra tíu þjóða þar sem lækkunin hefur orðið hvað mest. Það vekur athygli að árið 2018 eru Lettland og Litháen meðal þeirra þjóða sem hafa hæst gildi á vonda kólesterólinu fyrir karla,“ segir í tilkynningunni.

Þá segir að hækkun kolesteróls í Asíu sé áhyggjuefni. Leiða megi líkur að því að hún muni hafa í för með sér verulega aukningu á ótímabærum dauðsföllum vegna hjartaáfalla.
„Líklegt má jafnvel telja að þessar þjóðir geti í framtíðinni staðið frammi fyrir sams konar falli í lífslíkum og sást á Vesturlöndum á sjötta og sjöunda áratug síðasta aldar.“
Hins vegar megi rekja þann viðsnúning sem orðið hefur á Vesturlöndum, þar á meðal á Íslandi, fyrst og fremst til vitundarvakningar er kemur að áhættuþáttum hjartasjúkdóma og samstillts átaks, meðal annars fyrir hjartvænna mataræði.