Körfubolti

Eigandi Mavericks hyggst ,,taka hné“ með leikmönnum á meðan þjóðsöng stendur

Ísak Hallmundarson skrifar
Mark Cuban hefur verið aðaleigandi Dallas Mavericks í 20 ár. 
Mark Cuban hefur verið aðaleigandi Dallas Mavericks í 20 ár.  getty/Michael Reaves

Mark Cuban, eigandi Dallas Mavericks í NBA-deildinni í körfubolta, segir að ef leikmenn sínir kjósi að ,,taka hné“ þegar þjóðsöngur Bandaríkjanna er spilaður muni hann koma til með að gera slíkt hið sama.

Mikil umræða hefur skapast undanfarið um svokallað ,,kneeling“ í amerískum íþróttum, en það er þegar leikmenn fara niður á eitt hné á meðan þjóðsöngurinn er spilaður, í mótmælaskyni við lögregluofbeldi og rasisma. 

Mest hefur verið um að leikmenn í NFL mótmæli með þessum hætti en í flestum stóru íþróttadeildum Bandaríkjanna hefur verið reglugerð sem segir að leikmenn eigi að standa upp á meðan þjóðsöng stendur á. Nú nýlega hefur framkvæmdastjóri NFL-deildarinnar þó viðurkennt mistök í viðbrögðum deildarinnar við mótmælunum.

Í reglum NBA-deildarinnar er kveðið á um að leikmenn og þjálfarar standi á meðan þjóðsöngurinn er spilaður, en Mark Cuban segist vonast til að deildin þróist í takt við tíðarandann og leyfi leikmönnum að fylgja hjartanu og mótmæla. 

,,Hvort sem það er að setja höndina upp í loft, fara á hné, eða hvað sem er, þá held ég að þetta snúist ekki um virðingu eða vanvirðingu við fánann, þjóðsönginn eða landið okkar. 

Ég held að þetta snúist meira um að þetta skipti leikmennina svona miklu máli að þeir eru óhræddir við að segja hvað í hjarta þeirra býr og gera það sem þeir telja að sé rétt,“ sagði Cuban.

,,Ég mun standa með leikmönnunum, hvað sem þeir kjósa að gera. Ef þeir munu taka hné og væru að sýna virðingu, væri ég stoltur af þeim. Vonandi mun ég slást í lið með þeim.“

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×