Körfubolti

Leikmenn WNBA styðja karlmann í því að ná þingsæti af konu sem á eitt liðið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sue Bird átti hugmyndina að „Kjósið Warnock“ bolunum og hér sést hún í einum slíkum á leik.
Sue Bird átti hugmyndina að „Kjósið Warnock“ bolunum og hér sést hún í einum slíkum á leik. Getty/ Julio Aguilar

Það er óhætt að segja að Kelly Loeffler, eigandi Atlanta Dream í WNBA-deildinni í körfubolta, sé ekki vinsæl meðal leikmanna kvennadeildar NBA.

Hin 49 ára gamla Kelly Loeffler skapaði sér miklar óvinsældir meðal leikmanna WNBA-deildarinnar þegar hún talaði gegn því að WNBA-deildin myndi styðja eða vekja athygli á „Black Lives Matter“ herferðinni.

Loeffler skrifaði meðal annars bréf til framkvæmastýru deildarinnar, Cathy Engelbert, þar sem hún mótmælti því að slagorðið „Black Lives Matter“ væri málað á keppnisgólfið í WNBA-deildinni. Kelly Loeffler vildi frekar að leikmenn væri með bandaríska fánann á keppnistreyjum sínum.

Kelly Loeffler er Repúblikani sem tók við þingsæti Johnny Isakson fyrir Georgíufylki, þegar hann lét af störfum vegna heilsuástæðna í lok síðasta árs. Kelly Loeffler hefur því ekki verið kosin á þing en fram undan eru kosningar þar sem hún mun berjast fyrir því að halda þingsætinu.

Leikmenn WNBA voru í hópi þeirra sem gagnrýndu Kelly Loeffler fyrir að reyna að standa í vegi fyrir að réttindabarátta svartra fengi stuðning frá WNBA-deildinni.

Leikmennirnir í WNBA tóku síðan þá meðvitaða ákvörðun að hætta að tala um Kelly Loeffler sjálfa en einbeita sér frekar að því að styðja mótframbjóðanda hennar.

Þær töldu að það myndi aðeins hjálpa Kelly Loeffler ef hún væri umræðunni þrátt fyrir að umræðan væri neikvæð. Þess í stað væri miklu árangursríkara að auglýsa mótframbjóðandann sem að þeirra mati standi miklu frekar fyrir þeim málum sem leikmennirnir trúa á.

Sue Bird, leikstjórnandi Seattle Storm og kærasta Megan Rapinoe, átti hugmyndina en hún er einn reyndasti og farsælasti leikmaðurinn í sögu WNBA.

Margir leikmenn WNBA auglýstu mótframbjóðanda Kelly Loeffler með því að ganga um í bolum sem á stóð „Vote Warnock“ eða „Kjósið Warnock“ sem er frambjóðandi Demókrata.

Séra Raphael Warnock er fimmtugur prestur en hann er blökkumaður. Warnock hefur þakkað leikmönnum WNBA fyrir stuðninginn en Kelly Loeffler er allt annað en sátt.

Það verður fróðlegt að sjá hvor þeirra fær síðan þingsætið í komandi kosningum.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×