Karlmaður sem grunaður er um gróf kynferðisbrot gegn börnum á suðvesturhorninu og sat í gæsluvarðhaldi í tíu vikur vegna þeirra var látinn laus úr varðhaldi á aðfangadag.
Samkvæmt heimildum fréttastofu var maðurinn handtekinn í október og í framhaldinu úrskurðaður í gæsluvarðhald. Lögmaður mannsins kærði úrskurð í héraði til Landsréttar sem staðfesti varðhald sem rann út rétt fyrir jól.
Lögreglan á Suðurnesjum krafðist frekara gæsluvarðhalds yfir manninum og féllst héraðsdómur á varðhaldskröfuna. Lögmaður mannsins kærði úrskurðinn til Landsréttar sem sneri við úrskurðinum úr héraði. Maðurinn gengur því laus.
Málið er á borði héraðssaksóknara sem mun gefa út ákæru á hendur manninum. Hann á ekki brotaferil að baki eftir því sem Vísir kemst næst.
Í fyrri útgáfu fréttar var sagt að málið væri á borði lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Það hefur verið leiðrétt.