Landsréttur hefur staðfest niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur þess efnis að hafna gæsluvarðhaldskröfu lögreglunnar á höfðuborgarsvæðinu yfir Kristjáni Gunnari Valdimarssyni, lögfræðingi og lektor við Háskóla Íslands. Landsréttur, sem skipaður er þremur dómurum, komst að niðurstöðunni eftir hádegið í dag. Þetta hefur fréttastofa fengið staðfest frá Landsrétti.
Kristján Gunnar Valdimarsson var handtekinn á aðfararnótt aðfangadags og síðar sleppt en handtekinn aftur á jóladag vegna meintra kynferðisbrota, ofbeldis og frelsissviptingu gegn þremur konum. Kristján Gunnar var um jólin úrskurðaður í fjögurra daga gæsluvarðhald sem rann út 29. desember.
Þá var farið fram á áframhaldandi gæsluvarðhald en dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur tók sér sólarhringsumhugsunarfrest til að úrskurða. Fór svo að kröfunni var hafnað og hefur Kristján Gunnar verið laus síðan. Landsréttur staðfesti svo niðurstöðuna í dag.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur óskað eftir því við Landsrétt að úrskurðurinn verði ekki birtur opinberlega og vísar til rannsóknarhagsmuna í málinu.