Innlent

Segja stórsigur að tekist hafi að opna búð á Borgarfirði eystra

Kristján Már Unnarsson skrifar
Helga Björg Eiríksdóttir, húsmóðir og harðfiskverkandi á Borgarfirði eystra.
Helga Björg Eiríksdóttir, húsmóðir og harðfiskverkandi á Borgarfirði eystra. Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.

Íbúar Borgarfjarðar eystri segja stórsigur að tekist hafi að opna matvöruverslun á ný í þessu eitthundrað manna byggðarlagi en til þess þurfti samhent átak heimamanna og stuðning brottfluttra. Þetta kom fram í fréttum Stöðvar 2. 

Íbúar Borgarfjarðar máttu búa við það í tæpt ár fram á mitt ár 2018 að hafa enga matvöruverslun og þurftu þá að keyra sjötíu kílómetra vegalengd til Egilsstaða til að kaupa í matinn. En svo fóru aftur að berast vörusendingar. Búðin lifnaði við að nýju.

Bryndís Snjólfsdóttir annast afgreiðslu í Búðinni.Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.

„Ég held að það séu allir mjög ánægðir með það. Og vel sótt. Þetta var bara mjög lélegt að hafa ekki búð hérna í heilan vetur. Þurftum að fara í Egilsstaði til að versla,“ segir Bryndís Snjólfsdóttir, sem var við afgreiðslu í Búðinni.

Opnunartími er venjulega bara tveir tímar síðdegis og bara þrjá daga í viku yfir háveturinn.

„Það var stórsigur að fá aftur búð á staðinn. Mér fannst það alveg hræðilegur tími, - það var einn vetur sem var lokað og við höfðum enga búð. Það var alveg skelfilegur tími,“ segir Helga Björg Eiríksdóttir, húsmóðir á Borgarfirði.

Jakob Sigurðsson oddviti kemur með vörur í Búðina en hann annast farþega- og vöruflutninga.Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.

Búðin á Borgarfirði er ein sex verslana í strjálbýli sem ríkisvaldið ákvað að styðja með sérstöku framlagi en jafnframt kom til samhent átak sjötíu manna hóps.

„Þetta var eitt verkefnið í Brothættum byggðum, sem hafðist í gegn, með bara stuðningi allra heimamanna og burtfluttra Borgfirðinga. Bara samhentur hópur sem stóð saman að þessu,“ segir Jakob Sigurðsson, oddviti Borgarfjarðar eystri.

Jakob oddviti: Samhent átak, jafn heimamanna sem brottfluttra.Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.

Og þetta er ekki bara búð.

„Upplýsingamiðstöð. Og hér kemur fólkið saman og fær sér kaffisopa hérna fram í kaffihorninu og spjallar um lífið og tilveruna,“ segir Bryndís.

„Svoleiðis að ég gleðst, var mjög glöð þegar var opnuð hérna búð, og versla allt hér,“ segir húsmóðirin Helga Björg, sem segist ekki einu sinni gera helgarinnkaupin á Egilsstöðum.

„Né, ég er alveg trú búðinni hér, algjörlega bara.“

Hér má sjá frétt Stöðvar 2:


Tengdar fréttir

Búkollustjórinn Dóra einn af gleðigjöfum Borgfirðinga

Gleði ríkir meðal Borgfirðinga eystra að sjá loksins fyrir endann á uppbyggingu þjóðvegarins yfir til Héraðsflóa eftir áratugabaráttu. Liðlega tvítug stúlka er í hópi þeirra sem annast vegagerðina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×