Körfubolti

Barkley drullar yfir leikmenn Sixers og alla NBA-deildina: Þeir kunna ekki að spila körfubolta

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Charles Barkley við styttuna af sér fyrir utan æfingahús Philadelphia 76ers.
Charles Barkley við styttuna af sér fyrir utan æfingahús Philadelphia 76ers. Getty/Mitchell Leff

Charles Barkley var leikmaður Philadelphia 76ers fyrstu átta árin á NBA-ferli sínum og hefur sterkar taugar til félagsins. Hann er hins vegar ekki ánægður spilamennsku Sixers þessa dagana og Chuck er líka óhræddur að segja sína óvægu skoðun á leikmönnum liðsins.

Philadelphia 76ers tapaði á móti Milwaukee Bucks í nótt og hefur þar með tapað fjórum leikjum í röð í NBA-deildinni. Charles Barkley var mættur á TNT til að greina leik liðsins eftir leikinn í nótt og þar drullaði hann vel yfir liðið.

„Ég hef mjög miklar áhyggjur af liðinu. Númer eitt er að þeir kunna ekki að spila körfubolta,“ sagði Charles Barkley í upphafi „fyrirlesturs“ síns um ástandið hjá Philadelphia 76ers. Bakrley líkir liðinu við Cleveland Browns í NFL-deildinni.

Hann gagnrýndi líka Al Horford fyrir að tala um það opinberlega að það sé eitthvað í ólagi í klefanum.



Barkley fór líka yfir leikstíl liðsins en menn hafa talað um að sóknarleik Philadelphia 76ers liðsins vanti sitt auðkenni.

„Ef þeir keyra upp hraðann þá að Ben (Simmons) að vera aðalmaðurinn en þegar þeir róa leikinn niður þá leikur liðsins að fara í gegnum Joel (Embiid). Þetta er ekki heilaskurðaðgerð,“ sagði Charles Barkley og hélt áfram að leggja mönnum línurnar.



Hann hætti síðan að tala bara um Philadelphia 76ers og fór að tala um alla deildina.

„Við erum alltaf af búa til afsakanir fyrir þennan ömurlega körfubolta sem er spilaður í NBA deildinni í dag. Allir þessir strákar eru að fá hundrað milljón dollara og halda svo að þeir geti spilað,“ sagði Charles Barkley og hélt áfram.

„Ég óska öllum þessum ungu strákum góðs gengis og vil þeim vel en það gengur ekki að allir þessir slæpingar séu að fá 150 til 160 milljón dollara,“ sagði Chuck en það má sjá tölu hans hér fyrir neðan.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×