Ofurfyrirsætan og leikkonan Pamela Anderson og kvikmyndaframleiðandinn Jon Peters hafa ákveðið að slíta samvistum, aðeins 12 dögum eftir að þau játuðust hvort öðru við hátíðlega athöfn í Mailbu í Kaliforníu í Bandaríkjunum.
Að því er fram kemur í frétt TMZ af skilnaði þeirra Anderson og Peters virðast þau þó aldrei formlega hafa skilað inn tilskildum pappírum til þess að geta talist skráð í hjúskap.
TMZ hefur eftir Pamelu: „Ég er hrærð yfir hlýlegum viðbrögðum við sambandi mínu og Jons. Við yrðum afar þakklát fyrir stuðning ykkar á meðan við tökum okkur tíma og endurmetum hvað við viljum í lífinu, og hvort frá öðru. Lífið er ferðalag og ástin er ferli.“
„Með þann algilda sannleik í huga höfum við ákveðið að fresta fullgildingu hjónabandsins og setja trú okkar á ferlið. Takk fyrir að virða friðhelgi okkar.“
Þegar tilkynnt var um væntanlegt hjónaband þeirra Anderson og Peters var haft eftir kvikmyndaframleiðandanum að hann væri enn bálskotinn í Pamelu, en þau áttu í sambandi fyrir um þrjátíu árum. Hún sagði sömuleiðis að Peters væri einn af upprunalegu „vondu strákunum“ (e. bad boys) í Hollywood, og að hún elskaði hann.
Hefði hjónaband þeirra Anderson og Peters formlega gengið í gegn hefði það verið fimmta hjónaband hvors þeirra.
Pamela Anderson skilin eftir aðeins 12 daga hjónaband sem var ekki alvöru hjónaband
