Þeir Janus Daði Smárason og Ómar Ingi Magnússon skoruðu samtals fimm mörk er Álaborg lagði Celje í Meistaradeild Evrópu í handbolta í dag. Lokatölur 28-24 danska liðinu í vil.
Heimamenn í Álaborg voru sterkari aðilinn frá upphafi leiks og voru fjórum mörkum yfir í hálfleik, 13-9. Fór það svo að þeir unnu fjögurra marka sigur á endanum, 28-24.
Janus Daði gerði fjögur mörk og Ómar Ingi eitt.
Álaborg er sem stendur í 4. sæti A-riðils með 13 stig, fimm stigum á eftir Guðjóni Vali Sigurðssyni og félögum í PSG sem leika síðar í dag. Stefnir allt í að Álaborg komist áfram í 16-liða úrslit keppninnar en tveir leikir eru eftir í riðlakeppninni.
