Veginum um Hafnarfjall var lokað um miðnætti og það ekki að ástæðulausu. Vegagerðin bjóst við því að þar myndi ríkja „hviðuástand“ í óveðrinu sem gengið hefur yfir sunnanvert landið í dag og óhætt er að segja að að hafi staðist.
Samkvæmt mælingum Vegagerðarinnar hafa hviður undir Hafnarfjalli ítrekað farið yfir 40 m/s frá miðnætti og aðeins orðið sterkari eftir því sem liðið hefur á morguninn. Þannig mældist hviða upp á 71 m/s við Hafnarfjall klukkan 10:10 í morgun og meðalvindur upp á næstum 30 m/s.
Alls hafa 27 bílar ekið um Hafnarfjall frá miðnætti og ætla má að þar hafi björgunarsveitarfólk verið í meirihluta, sem hafa mannað lokunarpósta á öllum helstu umferðaræðum í kringum höfuðborgina í dag.
Gert er ráð fyrir að veður gangi að mestu niður nú um hádegi og munu vegir landsins opna hver af öðrum eftir því sem líður á daginn.
Fréttastofan greinir frá öllum nýjustu vendingum í rauntíma í Óveðursvaktinni.
