Körfubolti

Giannis hrósar LeBron í hástert og segir hann veita sér innblástur

Ísak Hallmundarson skrifar
Giannis og LeBron í stjörnuleiknum
Giannis og LeBron í stjörnuleiknum vísir/getty

Los Angels Lakers fær Milwaukee Bucks í heimsókn í NBA-deildinni í nótt. Þetta er sannkallaður stórleikur þar sem Lakers eru efstir í Vesturdeildinni og Bucks eru langefstir í Austurdeildinni.

Stærstu stjörnur þessara liða eru LeBron James hjá Lakers og Giannis Antetokounmpo hjá Bucks. Þessir tveir hafa einmitt verið fyrirliðar sinna liða í stjörnuleiknum síðustu tvö ár og er oft stillt upp gegn hvorum öðrum.

Giannis segir að körfuboltageta og frammistaða hins 35 ára gamla LeBrons James veiti sér innblástur. ,,Þetta er ótrúlegt. Hann er 35 ára og spilar á hæsta stigi, sagði sá gríski.

,,Oft á tíðum hugsar maður með sér að maður verði hættur í körfubolta 35 ára, en að sjá 35 ára gamlan leikmann sem er enn þá einn af þremur bestu leikmönnum í heimi, það fær mann til að vilja gera það sama. Ég verð því að halda áfram að hugsa vel um líkamann, borða rétt og lifa heilbrigðum lífsstíl. Hann (LeBron) hefur sett fordæmið og vonandi getur maður fetað í hans spor.

Antetokounmpo, sem er 25 ára, hefur átt magnað tímabil með Milwaukee í vetur og er liðið með langbesta árangurinn í allri NBA-deildinni. Hann var valinn verðmætasti leikmaður deildarinnar í fyrra og stefnir hraðbyr í átt að því að verja þann titil.

Góðar líkur eru á því að þessi tvö lið, Lakers og Bucks, mætist í úrslitum NBA-deildarinnar.

,,Við þurfum bara að mæta þangað og spila góðan körfubolta. Við vitum að Lakers munu mæta grimmir til leiks. Við unnum þá síðast þannig þeir munu reyna að hefna sín í þessum leik, sagði Giannis um leikinn gegn LA Lakers, sem verður kl. 02:30 á íslenskum tíma í nótt.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×