Körfubolti

Milwaukee mætti ekki til leiks í mót­mæla­skyni

Anton Ingi Leifsson skrifar
Giannis Antetokounmpo og samherjar ætla ekki að spila í kvöld.
Giannis Antetokounmpo og samherjar ætla ekki að spila í kvöld. vísir/getty

Ekkert verður úr fimmta leik Milwaukee Bucks og Orlando Magic í úrslitakeppni NBA-deildarinnar en leikmenn Milwaukee ætla ekki að spila leikinn vegna réttindabaráttu svarta.

Sögusagnir höfðu verið um að einhver lið myndu sniðganga leik í úrslitakeppninni vegna atburðanna í Bandaríkjunum síðustu vikur.

Réttindabarátta svartra vestanhafs hefur verið á yfirborðinu í Bandaríkjunum, sér í lagi eftir að George Floyd var myrtur af lögreglumönnum í Minneapolis í lok maí.

Dómarar leiksins og forráðamenn NBA-deildarinnar fóru inn í búningsklefa Milwaukee fyrir leikinn en þeir höfðu engan áhuga á að spila leikinn þrátt fyrir að bæði lið væru mætt í höllina í Disney-landi.

Adrian Wojnarowski, einn virtasti NBA-blaðamaðurinn, greinir frá því á síðu sinni að leikmenn Milwaukee hafi tekið þessa ákvörðun eftir að Jacob Blake var skotinn sjö sinnum í bakið. Faðir hans segir að hann sé nú lamaður.

Milwaukee var komið í 3-1 í einvíginu gegn Orlando og var talið eitt líklegasta liðið til þess að fara alla leið í ár en óvíst er hvað verður um þetta einvígið eftir atburði dagsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×