Körfubolti

LeBron segir 2020 versta ár sem hann hefur upplifað

Ísak Hallmundarson skrifar
Árið 2020 hefur verið mörgum erfitt.
Árið 2020 hefur verið mörgum erfitt. getty/Kevin C. Cox

Árið í ár hefur verið sérstakt fyrir körfuboltamanninn LeBron James fyrir margar sakir. Í byrjun árs féll góður vinur hans frá, körfuboltagoðsögnin Kobe Bryant, eftir þyrluslys. 

Á föstudaginn síðasta lést leikarinn Chadwick Boseman eftir baráttu við krabbamein. Boseman lék Black Panther í Avengers-myndunum og var í miklu uppáhaldi hjá LeBron.

„Að missa Black Panther og „Black Mamba“ (Kobe Bryant) á sama árinu, við getum öll verið sammála um að 2020 er versta árið. Á mínum 35 árum, það er ekki spurning,“ sagði James.

LeBron og félagar í Lakers komust áfram í aðra umferð úrslitakeppninnar í gær en daganna þrjá á undan var gerð hlé á keppni í NBA, þar sem leikmenn voru að mótmæla skotárás lögreglu á Jacob Blake, sem var skotinn sjö sinnum í bakið þegar hann gekk í átt að bílnum sínum.

„Það er frábært að vera kominn aftur á völlinn. Það var smá efi um að við myndum klára keppnina en við settum saman áætlun sem við ætlum að fara eftir. Það er það sem við höfum getað gert síðustu þrjá daga,“ sagði LeBron James.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×