Körfubolti

Denver fullkomnaði endurkomuna með því að vinna oddaleikinn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Nikola Jokic skoraði sigurkörfu Denver Nuggets gegn Utah Jazz.
Nikola Jokic skoraði sigurkörfu Denver Nuggets gegn Utah Jazz. getty/Mike Ehrmann

Denver Nuggets er komið í undanúrslit Vesturdeildar NBA-deildarinnar í körfubolta eftir sigur á Utah Jazz í nótt, 80-78. Denver lenti 3-1 undir í einvíginu en vann síðustu þrjá leikina og tryggði sér sæti í undanúrslitum þar sem liðið mætir Los Angeles Clippers.

Denver er aðeins tólfta liðið í sögu NBA og það fyrsta í fjögur ár sem kemst áfram þrátt fyrir að lenda 3-1 undir í einvígi.

Nikola Jokic skoraði sigurkörfu Denver. Utah fékk tækifæri til að vinna leikinn í lokasókn sinni en skot Mikes Conley geigaði.

Jokic skoraði 30 stig og tók fjórtán fráköst. Eftir þrjá stórkostlega leiki í röð var Jamal Murray nokkuð rólegur í nótt og lét sautján stig duga.

Donovan Mitchell, sem fór á kostum í einvíginu líkt og Murray, var stigahæstur í liði Utah með 22 stig. Rudy Gobert skoraði nítján stig og tók átján fráköst.

Boston Celtics er komið í 2-0 í einvíginu gegn Toronto Raptors í undanúrslitum Austurdeildarinnar eftir sigur í öðrum leik liðanna, 99-102.

Boston var mun sterkari í 4. leikhlutanum sem liðið vann, 32-21. Marcus Smart fór þá mikinn og skoraði sextán af nítján stigum sínum og setti niður fimm þriggja stiga skot.

Jayson Tatum var stigahæstur í liði Boston með 34 stig. Kemba Walker var einnig öflugur og skoraði ellefu af síðustu sextán stigum Boston.

Meistarar Toronto náðu tólf stiga forskoti í 3. leikhluta en glutruðu því niður í þeim fjórða. Liðið hefur tapað fimm af sex leikjum sínum gegn Boston á tímabilinu. OG Anuoby skoraði 20 stig fyrir Toronto og Fred VanVleet nítján.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×