Formaður Miðflokksins segir borgarstjórnarmeirihlutann ulla framan í ríkisstjórnina varðandi Sundabraut skömmu eftir að hún hafi látið hafa sig í að undirrita samgöngusáttmála við sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu. Fjármálaráðherra segir sáttmálann gerðan vegna mikillar þarfar á stórátaki í samgöngumálum höfuðborgarsvæðisins.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Miðflokksins sagði í fyrirspurnartíma í morgun að Reykjavíkurborg væri þegar byrjuð að vinna gegn markmiðum samgöngusáttamála höfuðborgarsvæðisins sem ríkisstjórnin hefði látið hafa sig í að undirrita. En lög um stofnun sérstaks félags um samgönguframkvæmdir í sex sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu voru samþykkt í sumar og fela meðal annars í sér uppbyggingu borgarlínu, lagningu Sundabrautar og stórframkvæmdir á ýmsum gatnamótum og stofnbrautum.
„En ekki var ríkisstjórnin fyrr búin að láta plata sig til að undirrita þennan sáttmála og koma honum hér í gegnum þingið en að borgarstjórnarmeirihlutinn í Reykjavík í rauninni einfaldlega ullar á ríkisstjórnina. Og útskýrir það að ekki standi til að standa við þann hluta samkomulagsins, sem var þó mjög jákvæður, það er að segja hluti á borð við Sundabraut,“ sagði Sigmundur Davíð.
Framkvæmdir við Sundabraut hafi verið einhvers konar lausnargjald borgarinnar til ríkisstjórnarinnar fyrir að gangast undir hina rándýru borgarlínu. Spurði Sigmundur Davíð Bjarna Benediktsson fjármálaráðherra hvernig hann hyggðist bregðast við.

„Það er alrangt hjá háttvirtum þingmanni að ríkisstjórnin hafi látið hafa sig í eitthvað. Ríkisstjórnin hefur einfaldlega þá sýn að það skipti miklu máli að gera stórátak í samgöngumálum höfuðborgarsvæðisins,“ sagði Bjarni.
Það fæli í sér lausn á stórum umferðamannvirkjum sem leitt hefðu til tafa í umferðinni, skapað umferðarhnúta og þess að fólk tapaði tíma frá vinum, fjölskyldu og vinnu.
„Og hins vegar að þá þurfi að gera hér á höfuðborgarsvæðinu skilvirkara almenningssamgöngukerfi. Þar sem öll sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu hafa sameinast um ákveðna sýn. Hún er til frekari útfærslu í samvinnu við þingið á vettvangi þess félags sem stendur til að stofna og Alþingi hefur veitt heimildir fyrir,“ sagði Bjarni Benediktsson. Hann benti á að útfærslur einstakra mannvirkja væru eftir en Alþingi ætlaðist auðvitað til að fjárframlög leiddu til raunverulegra framkvæmda.