Innlent

Þáttur Trumps gífur­lega mikil­vægur

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Magnea og Pawel ræddu málin í Sprengisandi í morgun.
Magnea og Pawel ræddu málin í Sprengisandi í morgun. Bylgjan

Formaður utanríkismálanefndar Alþingis telur tvísýnt að vopnahlé Ísraela og Hamas haldi. Hann og alþjóðastjórnmálafræðingur sammælast um að hlutverk Bandaríkjaforseta sé gífurlega mikilvægt í vopnahlésviðræðunum.

Fyrsti fasi samningaviðræðna á milli Ísraela og Hamas er hafinn eftir þrýsting frá Donald Trump Bandaríkjaforseta um að koma á vopnahléi. Þrátt fyrir að vopnahlé sé nú í gildi hafa bæði Ísraelar og Hamas-liðar sakað hvorn annan um að brjóta skilmála þess. Pawel Bartoszek, formaður Utanríkismálanefndar Alþingis, sagði í Sprengisandi í morgun að framtíð vopnahlésins væri tvísýn.

„Það er ekki þannig að það hafi verið algjör friður á svæðinu. Bæði hafa verið gerðar loftárásir, það hefur verið skotið á fólk svo berast fréttir af aftökum Hamas samtakanna á þeim svæðum sem þeir ráða yfir,“ segir Pawel. 

Hann hefur væntingar um að Bandaríkjaforseti haldi áfram að beita þrýstingi til þess að vopnahléið haldi og samningaviðræður haldi áfram. Magnea Marinósdóttir alþjóðstjórnmálafræðingur tekur undir að þáttur Trumps í viðræðunum er gífurlega mikilvægur.

„Hvað sem því líður þá eru núna auðvitað allir að tala um þennan Trump-þátt. Hann er svo gífurlega mikilvægur og líka þrýstingur Arabaríkjanna. Það er náttúrulega rosa mikið í húfi því núna hefjast á næstu dögum þessar erfiðu samningaviðræður sem að lúta að því að koma raunverulega á friði, segir Magnea.

Trump setti fram tuttugu punkta vopnahléssamkomulag sem Ísraelar samþykktu og Hamas að hluta til. Meðal þess sem Hamas samþykkti ekki var algjör afvopnun þeirra. Meðal Trumps kalla ýmsir ráðamenn eftir afvopnun Hamas og tekur Pawel undir það.

„Fyrir mitt leiti á ég aðeins erfitt að sjá fyrir mér hvaða hætti að við séum með gott friðsælt og sjálfstætt Palestínuríki og Hamas ræður ríkjum á Gasasvæðinu. Ég á erfitt með að sjá þá sviðsmynd fyrir mér,“ segir Pawel.

Fréttin hefur verið uppfærð: Upphaflega stóð að annar fasi vopnahlésviðræðna væri hafinn en það hefur verið leiðrétt í fyrsti fasinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×