Innlent

Fyrsta „hjólatyllan“ sett upp í Reykjavík

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, formaður skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkur, fagnar nýjunginni í borginni.
Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, formaður skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkur, fagnar nýjunginni í borginni. Mynd/Reykjavíkurborg

Fyrsti svokallaði hjólabiðstandurinn hefur verið tekinn í gagnið í Reykjavík. Biðstandurinn er neon-grænn að lit og var settur upp í gær á horni Laugavegar og Nóatúns. Að því er fram kemur í tilkynningu á vef borgarinnar hafa þessir standar almennt þann tilgang að „auka við þægindi hjólreiðamanna þegar þeir stoppa á rauðu ljósi við gatnamót.“

Hjólareiðafólk hafi hingað til þurft að styðja sig við staura eða stíga af hjólum en nú geti það sett fót á stand meðan beðið er.

Unnið er að því að koma upp alls sex hjólabiðstöndum við ljósastýrð hjólagatnamót í Reykjavík, það er við gatnamót Laugavegar og Nóatúns, á tveimur stöðum við gatnamót Kringlumýrarbrautar og Suðurlandsbrautar og Reykjavegar og Suðurlandsbrautar, og á gatnamótum Engjavegar og Suðurlandsbrautar.

„Það er mjög þægilegt að geta tyllt niður fæti á svona hjólatyllur við gatnamót þannig að það þurfi ekki að stíga niður af hjólinu þegar stoppað er," er haft eftir Sigurborgu Ósk Haraldsdóttur, formanni skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkur í tilkynningu á vef borgarinnar. „Margt smátt gerir eitt stórt og við stefnum ótrauð að því að bæta þjónustu fyrir hjólandi vegfarendur til framtíðar," er ennfremur haft eftir henni í tilkynningunni.

Hjólabiðstandarnir eru framleiddir og hannaðir af íslenska fyrirtækinu KRUMMA EHF.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×