Yfirvöld Kína halda nú fimm mismunandi flotaæfingar á hafsvæðum í Austur-Asíu. Þetta er í annað sinn á tveimur mánuðum sem herinn heldur svo umfangsmiklar æfingar og á sama tíma er spenna að aukast mikið á svæðinu.
Tvær æfingar fara fram í Suður-Kínahafi, þar sem Kína hefur gert ólöglegt tilkall til nánast alls hafsins og byggt upp flotastöðvar og flugvelli. Ein fer fram í Austur-Kínahafi og enn ein norður í Bohaíhafi. Þar að auki fer fram æfing í Gulahafi.
Kínverjar halda æfingar sem þessar reglulega en mjög sjaldgæft er að þær séu haldnar á sama tíma. Í síðasta mánuði voru fjórar æfingar haldnar á sama tíma og þar að auki hafa Kínverjar reglulega flogið herþotum inn í loftvarnasvæði Taívan.
Bandaríkin flugu njósnaflugvél yfir þær æfingar.
Hernaðarsérfræðingar í Bandaríkjunum hafa áhyggjur af því að nútímavæðing herafla Kína hafi aukið sjálfsöryggi ráðamanna í Peking verulega. Svo mikið að þeir telji sig geta tekið Taívan með valdi, eins og forsvarsmenn Kommúnistaflokksins hafa hótað að gera.
Sjá einnig: Drekinn að ná í stélið á erninum
Yfirvöld í Kína líta á Taívan sem eigið landsvæði. Taívan hefur þó verið með heimastjórn frá 1950 og er í reynd sjálfstætt þrátt fyrir að hafa aldrei lýst formlega yfir sjálfstæði frá Kína.
Sjálfstæðissinnum hefur þó verið að vaxa ásmegin í Taívan á undanförnum árum.
Sjá einnig: Gagnrýnir Kína harðlega fyrir heræfingar
Varðandi Suður-Kínahaf, þá hefur Utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna sakað ráðmenn í Kína um að fara á bak orða sinna varðandi hervæðingu eyja í Suður-Kínahafi. Talsmaður ráðuneytisins vísaði í orð Xi Jinping, forseta Kína, frá því hann heimsótti Hvíta húsið árið 2015. Þá sagði hann að ekki stæði til að hervæða Spratlyeyjar og að stöðvar Kína í Suður-Kínahafi myndu engin áhrif hafa á önnur ríki.
Kínverjar hafa þó komið fyrir eldflaugum, flotastöðvum og flugvöllum á eyjunum.
Mörg ríki gera tilkall til Spratlyeyja. Filippseyjar eru þeirra á meðal en Rodrigo Duterte, forseti Filippseyja, ræddi eyjurnar og Suður-Kínahaf í ræðu sinni á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í síðustu viku. Gagnrýndi hann yfirvöld í Kína vegna málsins.
Vísaði hann til úrskurðar Alþjóðagerðardómsins í Haag frá 2016. Þar sem tilkall Kína var dæmt ólöglegt. Niðurstaðan er bindandi en dómstóllinn hefur ekkert vald til að fylgja henni eftir. Kínverjar hafa hafnað þeim úrskurði.