Körfubolti

LeBron James tapar 54 milljónum á hverjum leik sem frestað hjá liðinu út af COVID-19

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
LeBron James missir af hundruðum milljóna íslenskra króna verði NBA tímabilinu aflýst.
LeBron James missir af hundruðum milljóna íslenskra króna verði NBA tímabilinu aflýst. Getty/AAron Ontiveroz

Leikmannasamtök NBA deildarinnar hafa sent leikmönnum sínum bréf þar sem útskýrt er hversu miklum hluta launa sinna þeir tapa vegna þess að NBA deildinni var frestað.

Adam Silver, yfirmaður NBA-deildarinnar, talaði fyrst um 30 daga hlé á NBA deildinni en það lítur út fyrir að það verði að minnsta kosti tveir mánuðir. Ástandið er ekki gott í Bandaríkjunum og er eflaust ekki að fara að batna í bráð.

Það tapa allir miklum peningum á frestun NBA leikjanna, félögin sjálf missa af miklum tekjum og hvað þá fólkið sem vinnur í íþróttahúsunum og í kringum leikina.

NBA leikmennirnir sjálfir eru flestir að rosalegum launum en þau eru ekki alveg gulltryggð. Það er nefnilega hamfara klásúla í samningunum.

Það er heimsfaraldurs ákvæði í samningi NBA deildarinnar við leikmannasamtökin og hún frýjar eigendur frá því að borga leikmönnum hluta launa þeirra. Það er því öruggt að leikmenn tapa líka miklum peningum á þessari frestun deildarinnar.

NBA eigendurnir þurfa reynda að virkja þetta ákvæði og tefla þá á tvær hættur með að reita leikmenn sína til reiði sem gæti síðan haft áhrif á næstu samninga. En hversu miklum peningi gætu leikmenn verið að missa af.

Ric Bucher hjá Bleacher Report hefur aflað sér upplýsinga um þetta mál. Samkvæmt heimildum hans þá missa leikmenn 1,08 prósent af launum sínum við hvern leik sem fellur niður vegna svona hamfara.

Ef við uppfærum þetta á launin hjá LeBron James þá myndi hann missa 404 þúsund Bandaríkjadala í hverjum leik en það gera 54 milljónir íslenskra króna.

LeBron James er með 37,4 milljónir Bandaríkjadala í laun á þessu tímabili eða fimm milljarða íslenskra króna.

LeBron James hefur verið lengi á ofurlaunum og þarf ekki að hafa miklar áhyggjur en þetta gæti haft meiri áhrif á aðra leikmenn sem hafa mun lægri laun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×