Everton tapaði 0-1 á heimavelli sínum gegn Leeds United í ensku úrvalsdeildinni í dag. Var þetta fjórða tap lærisveina Carlo Ancelotti í síðustu fimm leikjum.
Gengi Everton hefur verið vægast sagt slakt undanfarnar vikur eftir öfluga byrjun á tímabilinu. Gylfi Þór Sigurðsson sat á varamannabekk Everton frá upphafi til enda í dag.
Leikurinn var töluvert fjörugri en lokatölur gefa til kynna. Bæði lið óðu í færum í fyrri hálfleik og hélt James Rodriguez hélt hann hefði komið Everton yfir um miðbik hálfleiksins. Markið hins vegar dæmt af eftir að hafa verið skoðað í varsjánni.
Undir lok fyrri hálfleiksins var svo dæmd vítaspyrna eftir að brotið var á Dominic Calvert-Lewin innan vítateigs. Aftur kom varsjáin til skjalanna og var dæmd rangstaða í uppbyggingu sóknarinnar sem leiddi til vítaspyrnudómsins. Skömmu síðar átti Patrick Bamford skot í stöngina á marki Jordan Pickford.
Staðan hins vegar markalaus í hálfleik þó bæði lið hefðu ef til vill átt að vera búin að skora.
Síðari hálfleikur var svipaður og sá fyrri en bæði lið fengu urmul færi. Á endanum var það hinn ungi Raphinha sem skoraði með frábæru skoti í milli fóta Ben Godfrey á 79. mínútu leiksins. Var þetta fyrsta mark Raphinha fyrir Leeds.
Good move and a really good hit from Raphinha. More decent business by #lufc, 23-year-old bought for an initial £17m, makes things happen #EVELEE
— Henry Winter (@henrywinter) November 28, 2020
Reyndist það eina mark leiksins en alls áttu liðin 14 skot á markið samtals í dag og 36 skot alls. Það dugði þó aðeins til að skora eitt mark, það gerðu Leeds United og er um að ræða fjórða sigur þeirra á leiktíðinni. Sigurinn lyftir Leeds upp í 11. sæti með 14 stig. Everton er 6. sæti með 16 stig.