NBA tímabilið hefst rétt fyrir jól og að þessu sinni munu liðin spila í sínum heimahöllum en ekki í NBA búbblu. Það breytir ekki því að kórónuveiran mun áfram setja mikinn svip á deildina og lítið verður um áhorfendur í flestum höllum.
Mark Cuban, hinn litríki eigandi Dallas Mavericks, ræddi rekstur NBA liðs í miðjum heimsfaraldri í útvarpsþættinum The Hardline á íþróttarás KTCK-AM útvarpsstöðvarinnar. Cuban var meðal annars spurður út í erfitt rekstrarumhverfi í þessu ástandi.
„Mun ég tapa fullt af peningum á þessu tímabili? Já, það er enginn spurning um það. Meira en hundrað milljónum dollara þegar allt verður gert upp? Já engin vafi á því,“ sagði Mark Cuban. Hundrað milljónir dollara eru meira en tólf milljarðar íslenskra króna.
Mark Cuban owner of the Dallas Mavericks estimates that he will lose more than $100 million during the 2020-21 NBA season due to the COVID-19 protocols and arena restrictions. pic.twitter.com/u3XDQZP1tO
— Front Office Sports (@FOS) December 9, 2020
„Sem betur fer þá er ég í þeirri stöðu að ég hef efni á þessu. Ég mun halda áfram að borga okkar starfsfólki sem er það rétta í stöðunni,“ sagði Cuban.
„Þrátt fyrir að ég geti þetta núna þá þurfum við að komast aftur í að sila okkar venjulega tímabil. Við munum ekki byrja mótið aftur í desember. Við vitum að fólk vill fá sportið á þeim tíma sem það er vant því að fá sportið sitt,“ sagði Cuban.
„NBA deildin á að byrja í október og nóvember og enda í júní. Með því að byrja tímabilið í desember og spila færri leiki þá leggjum við grunninn að eðlilegu 2021-22 tímabili,“ sagði Cuban.
„Vonandi getum við lifað okkar venjulega lífi eftir að bólusetningunni er lokið og að allt verði þá í lagi,“ sagði Cuban. Cuban býst við miklum áhuga á leikjum Dallas þegar fólk má aftur fara að fylla íþróttahallir.
„Ég veðja á það að fólk verði orðið svo þreytt á því að hanga heima hjá sér að það mun allt verða brjálað þegar það kemst aftur á leiki. Það munu allir vilja fá tækifæri til að horfa á Luka [Doncic] og [Kristaps Porzingis] spila sem og allt Dallas Mavericks liðið. Það er óvissa með næstu mánuði en það verður svakalegt fjör hjá okkur þegar við verðum búin að fá bóluefnið,“ sagði Mark Cuban.